spot_img
HomeFréttirStjarnan í bílstjórasætinu: Spennusigur í Smáranum

Stjarnan í bílstjórasætinu: Spennusigur í Smáranum

22:08

{mosimage}

Stjörnumenn eru komnir í ákjósanlega stöðu í undanúrslitum eftir 81-88 sigur á Breiðablik í Smáranum í kvöld. Leikurinn var hnífjafn allt frá upphafi til enda en barátta Stjörnumanna á síðustu mínútum leiksins skilaði þeim góðum sigri á meðan Blikar voru í bullandi villuvandræðum. Staðan er því 1-0 Stjörnunni í vil í einvíginu og þurfa þeir aðeins að vinna einn leik til viðbótar til þess að komast í úrslit. Þorsteinn Gunnlaugsson fór hamförum í liði Blika með ruddatvennu en framlag hans í kvöld dugði ekki til gegn baráttuglöðum Stjörnumönnum.  

Sigurjón Lárusson kom gestunum úr Garðabæ á sporið og voru Stjörnumenn með frumkvæðið í upphafi leiks. Blikar léku stífa vörn en dómarar leiksins voru duglegir við að flauta villur á heimamenn og þegar aðeins tvær mínútur voru liðnar af leiknum var Aðalsteinn Pálsson strax kominn með tvær villur í liði Blika. Eftir aðeins þriggja mínútna leik voru Stjörnumenn komnir í skotrétt og Blikar því búnir að brjóta fimm sinnum af sér.  

Þórólfur Þorsteinsson kom sterkur af bekknum hjá Blikum og átti fínar rispur og ljóst að honum líður vel gegn Stjörnunni alveg síðan hann tryggði Blikum sigur gegn þeim bláu fyrr á leiktíðinni með eftirminnilegri lokarispu þegar liðin áttust einmitt við í Smáranum. Yrði hann hetja kvöldsins, aftur? Liðin önduðu ofan í hálsmálið á hvoru öðru í fyrsta leikhluta en Ben Bellucci kom Stjörnunni yfir í 24-27 með þriggja stiga flautukörfu og þannig var staðan að loknum 1. leikhluta.  

{mosimage}

Í öðrum leikhluta skiptu heimamenn yfir í svæðisvörn og þar líður Kjartani Atla Kjartanssyni vel og setti hann strax niður tvo þrista gegn svæðisvörn Blika og staðan 29-32 Stjörnunni í vil. Ólafur Guðnason kom full ákafur til leiks í liði Blika og fékk snemma sína fjórðu villu í 2. leikhluta og varð frá að víkja. Í kjölfarið gekk fínn kafli í garð hjá Stjörnunni sem breyttu stöðunni í 32-39 en heimamenn svöruðu með góðri rispu og jöfnuðu metin í 41-41 þar sem Þorsteinn Gunnlaugsson jafnaði metin á vítalínunni. Sævar Sævarsson kom Blikum svo í 48-46 með þriggja stiga körfu þegar 48 sekúndur voru til hálfleiks og reyndust það lokastigin í hálfleiknum. 

Garðbæingar voru sterkari aðilinn í þriðja leikhluta og unnu leikhlutann 14-21. Þorsteinn Gunnlaugsson fór hamförum í leikhlutanum og réðu Stjörnumenn ekkert við hann. Blikum til ama fylgdi enginn eftir góðum leik Þorsteins og því leiddi Stjarnan 62-67 að loknum þriðja leikhluta og Sævar Sævarsson einnig kominn með sína fjórðu villu í lið Blika. Ekki bætti úr skák fyrir heimamenn að Hilmar Geirsson setti niður þriggja stiga flautukörfu fyrir Stjörnuna og kveikti verulega í sínum mönnum…eða það myndi maður ætla. 

{mosimage}

Garðbæingar leyndu því ekki að þeir hefðu verið sáttir við flautukörfu Hilmars en hún kveikti ekki í þeim, þvert á móti komu Blikar sem grenjandi ljón í fjórða leikhlutann og gerðu 10 stig í röð án þess að Stjarnan næði að svara og staðan orðin 72-67 Blikum í vil. Garðbæingar náðu þó að jafna metin að nýju eftir körfu frá Birki Guðlaugssyni og um skeið skiptust liðin á því að hafa forystuna.  

Þeir Aðalsteinn Pálsson, Sævar Sævarsson og Ólafur Guðnason fengu allir sína fimmtu villu í fjórða leikhluta og setti það nokkurt strik í reikninginn hjá Blikum. Í stöðunni 76-78 fyrir Stjörnuna skoraði Ben Bellucci fyrir Garðbæinga og brotið var á honum um leið. Ben setti vítið niður og staðan því 76-81 og 2.30 mín til leiksloka. 

Vörn Stjörnunnar stóðst áhlaup Blika og þegar um mínúta var til leiksloka var staðan 79-83 fyrir Garðbæinga sem voru í sókn. Þeir bláu náðu tvívegis sóknarfrákasti á þessum kafla sem rakaði nægilega margar sekúndur af klukkunni til þess að koma þeim í sigurstöðu í leiknum. Úr varð 81-88 sigur Stjörnunnar sem hafa nú 1-0 yfir í rimmu liðanna. Ætli Blikar sér ekki að fara í sumarfrí á sunnudag verða fleiri en Þorsteinn Gunnlaugsson að láta að sér kveða en hann var vafalaust maður leiksins í kvöld þó Stjarnan hafi verið lið kvöldsins. 

Tölfræði úr leiknum er ekki enn komin í hús en hún verður birt um leið og hún berst. 

Valsmenn eru komnir í 1-0 gegn FSu eftir 85-75 sigur í kvöld. 

[email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -