Ísland mætir Spáni annað kvöld ytra í fyrsta leik sínum í lokariðil undankeppni HM 2023. Leikurinn hefst kl. 19:00 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á RÚV2. Seinni leikur ágústs leikja gluggans er svo á dagskrá komandi laugardag 27. ágúst, en í honum tekur liðið á móti Úkraínu í Ólafssal.
Spánn tilkynnti það fyrr í dag hvaða 12 leikmenn það verða sem mæta Íslandi annað kvöld. Hópinn er í heild hægt að sjá hér fyrir neðan. Í honum eru meðal annarra NBA bræðurnir Willy og Juancho Hernangomez, en þar eru einnig þónokkrir aðrir ACB og EuroLeague leikmenn. Þá voru fjórir leikmanna morgundagsins í liði Spánar sem vann heimsmeistaratitilinn árið 2019.
Segja má að leikurinn annað kvöld gæti orðið ákveðin brekka fyrir íslenska liðið, en fyrir leikinn er lið Spánar metið það næstbesta í heiminum á eftir því Bandaríska, á meðan að Ísland, sem hefur verið á uppleið síðustu misseri, situr í 44. sætinu.