spot_img
HomeFréttirBáráttusigur KR í Njarðvík: Íslandsmeistararnir uppi við vegg

Báráttusigur KR í Njarðvík: Íslandsmeistararnir uppi við vegg

20:30

{mosimage}

 

(Eitt skref og hann er horfinn, Patterson er eldfljótur og Njarðvíkingar eiga í mesta basli með hann)

 

 

KR hefur nú lykilstöðu í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla eftir 92-96 sigur á Njarðvíkingum í Ljónagryfjunni í dag. Með sigrinum færði KR Njarðvíkingum sinn fyrsta ósigur í Ljónagryfjunni í ár og reyndar alveg síðan í desember 2005. Hið sama var uppi á teningnum í dag og í öðrum leik liðanna, þegar um 3-4 mínútur voru til leiksloka skellu KR í lás í vörninni og Njarðvíkingar áttu í mesta basli með að koma boltanum í netið. Tyson Patterson átti stórkostlegan leik fyrir KR í dag og setti niður 31 stig og prjónaði sig þegar hann vildi upp að Njarðvíkurkörfunni. Liðin mætast í fjórða leiknum á mánudag kl. 20:00 þar sem KR getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

 

Leikur dagsins var mikill baráttuleikur og strax í upphafi kastaðist í kekki á millum manna. Pálmi Sigurgeirsson gerði fyrstu stig leiksins fyrir KR en Brenton Birmingham svaraði með þriggja stiga körfu fyrir Njarðvíkinga. Jafnt var með liðunum og minnstu munaði að upp úr syði á köflum. Þeir Halldór Karlsson og Skarphéðinn Ingason komu svo með enn meiri baráttu og hamagang inn á völlinn í 1. leikhluta og áttu í orðaskaki. Fyrir vikið fengu þeir sína hvora tæknivilluna dæmda á sig en hvorugt lið lét sér segjast, baráttan harðnaði ef eitthvað var. Staðan að loknum 1. leikhluta var 20-22 KR í vil og Tyson Patterson gerði lokastig leikhlutans og Njarðvíkingar í stórkostlegum vandræðum við að reyna að hafa gætur á leikstjórnandanum knáa.

 

Guðmundur Jónsson kom með góða baráttu inn í Njarðvíkurliðið og fljótlega komust heimamenn yfir, 30-29 með teigkörfu frá Igor Beljanski en Igor átti fínan dag á blokkinni fyrir Njarðvíkinga. Þegar 30 sekúndur voru til hálfleiks setti Jeb Ivey niður þriggja stiga körfu og kom Njarðvíkingum í 48-46 en það var Tyson Patterson sem enn og aftur átti lokaorðið er hann gerði þriggja stiga körfu fyrir KR og breytti stöðunni í 48-49 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Patterson var kominn með 18 stig í hálfleik fyrir KR en Brenton 16 hjá Njarðvík. Skarphéðinn Ingason fór offari í fyrri hálfleik og tókst að næla sér í fjórar villur en Igor Beljanski var kominn með þrjár villur í Njarðvíkurliðinu.

 

{mosimage}

 

Eins og svo oft vill gerast í þriðja leikhluta í Ljónagryfjunni þá tóku heimamenn á rás, gerðu 10 stig í röð án þess að KR næði að svara og staðan orðin 58-49 Njarðvíkingum í eftir þriggja stiga körfu frá miðherjanum Agli Jónassyni. Í teignum áttust þeir Igor og Fannar við af miklum krafti og leyfðu dómarar leiksins þeim að kljást sem var skemmtilegt að sjá. Heimamenn áttu undirtökin í þriðja leikhluta og lauk honum í stöðunni 75-68 Njarðvíkingum í vil.

 

KR barði sér leið aftur inn í leikinn í fjórða leikhluta og eftir fjögur stig í röð frá Tyson Patterson var munurinn kominn niður í 2 stig, 77-75 Njarðvík í vil. Darri Hilmarsson barðist vel í fjórða leikhluta fyrir KR og tók t.d. nokkur mikilvæg sóknarfráköst. Þegar líða tók á fjórða leikhluta óx KR ásmegin og jöfnuðu þeir metin í 86-86 og komust svo yfir 86-88 eftir körfu frá Jeremiah Sola þegar 2.30 mín. voru til leiksloka.

 

Síðustu kaflar leiksins voru síðan hrein endurtekning á því sem gerðist í DHL-Höllinni í öðrum leik liðanna. KR skellti í lás í vörninni og Njarðvíkingar komust hvorki lönd né strönd. Enn að nýju fór Jeremiah Sola á kostum undir lokin. Fannar Ólafsson kom KR í 87-90  þegar mínúta var til leiksloka og sá munur reyndist KR nægilegur því þeir spiluðu af mikilli skynsemi á lokasprettinum.

 

{mosimage}

 

Jeb Ivey fékk þrjú vítaskot undir lok leiksins og átti kost á því að minnka muninn í tvö stig en hann hitti aðeins úr einu af þremur vítaskotum sínum og þar með var botninn dottinn úr leik Njarðvíkinga.

 

Staðan er ekki vænleg hjá Njarðvíkingum sem nú hafa í tveimur leikjum í röð farið á taugum á lokasprettinum á meðan KR berjast af öllum lífs og sálar kröftum. Ef áfram heldur sem horfir fæst ekki annað séð en að KR lyfti þeim stóra á mánudagskvöld.

 

Liðin mætast aftur á mánudag kl. 20:00 í DHL-Höllinni.

 

Tölfræði úr leiknum hefur ekki borist.

 

Gangur leiksins:

 

5-5, 13-13,20-22

20-26, 35-35,48-49

52-49,63-54,75-68

79-75,86-84,92-96

 

www.vf.is

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -