spot_img
HomeFréttirKallaður Chris Webber af félögunum

Kallaður Chris Webber af félögunum

09:41 

{mosimage}

Það er óhætt að segja að Jeremiah Sola hafi unnið hug og hjörtu KR-inga í úrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn gegn Njarðvík. Sola steig upp hvað eftir annað þegar á reyndi og sá til þess að KR landaði góðum sigrum. Fyrir vikið var byrjað að kalla hann „Mr. Clutch" sem er uppnefni fyrir leikmenn sem klára leiki þegar allt er undir. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag – www.visir.is  

Atvik í lok síðasta leiksins gegn Njarðvík varð til þess að Sola fékk annað uppnefni – Chris Webber. Ástæðan er sú að hann reyndi að taka leikhlé þegar KR átti engin leikhlé eftir og þess utan mátti Sola ekki taka leikhlé í þeirri stöðu sem hann var. Hann hefði sem sagt aldrei fengið leikhléið. NBA-stjarnan Chris Webber lenti í því sama á sínum tíma í úrslitaleik háskólaboltans árið 1993 með Michigan gegn North-Carolina. Stærsti munurinn í þessum tilvikum er þó sá að Michigan tapaði unnum leik en KR hélt út þrátt fyrir mistök Sola. 

„Ég var búinn að heyra af þessu „Clutch"-viðurnefni en strákarnir voru ekki búnir að segja mér frá þessu Webber-dæmi," sagði Sola og hló dátt er blaðamaður spurði hann út í nafngiftina. „Sem betur fer endaði þetta ekki hjá mér eins og Webber. Ég var bara að hugsa um að spila minn leik og gleymdi að við vorum búnir með leikhléin. Við unnum svo það er hægt að hlæja að þessu núna." Sola er ákaflega hógvær og vill sem minnst gera úr eigin frammistöðu í úrslitaleikjunum. „Liðið lék vel saman og það er liðsheildin sem skilaði þessum titli. Stemningin á leikjunum var rosaleg og stuðningsmennirnir eiga stóran þátt í þessum titli. Ég er mjög hamingjusamur fyrir hönd allra hjá KR með að hafa náð titlinum," sagði Sola sem segist hafa notið dvalarinnar á Íslandi en kemur hann aftur? 

„Við sjáum til. Það þarf að huga að mörgum hlutum og svo þarf ég að heyra í umboðsmanni mínum og vita hvort aðrir hlutir séu í gangi. Ef ekki, kemur vel til greina að koma aftur til Íslands og spila með KR," sagði Sola sem fór utan til Bandaríkjanna í gær svo hann gæti verið hjá konunni sinni sem á von á barni á hverri stundu.

 

www.visir.is

Fréttir
- Auglýsing -