14:25
{mosimage}
(Teitur tekur við gullmerki UMFN í fyrra)
Teitur Örlygsson verður næsti þjálfari körfuknattleiksliðs Njarðvíkur en samningur þess efnis millum Teits og stjórnar KKD UMFN var handsalaður í gærkvöldi. Teitur tekur við af Einari Árna Jóhannssyni, fráfarandi þjálfara. Einar Árni var við stjórnvölin í þrjú ár hjá Njarðvík og gerði liðið á þeim tíma að Íslands-, Bikar-, og Deildarmeisturum. Frá þessu er greint á www.vf.is
Teitur mun bráðlega skrifa undir tveggja ára samning við félagið og segist hann vera ofboðslega spenntur fyrir verkefninu. ,,Þetta er mitt félag og það eru tilfinningar í þessu. Ég þekki alla þessa stráka í liðinu og hef fulla trú á þeim. Þegar það kom upp að Einar hætti störfum þá kom ég því til leiðar að ég hafði áhuga á þessu og sem betur fer hafði stjórnin trú á mér,” sagði Teitur í samtali við Víkurfréttir.
Stjórn KKD UMFN tjáði Víkurfréttum að vart væri hægt að hugsa sér betri eftirmann Einars en Teit Örlygsson og að stjórnin beri mikið traust til hans. Stjórnin hefur fulla trú á því að Teitur geti haldið Njarðvík á þeim gæðastalli sem liðið hefur verið á og vænta mikils af samstarfinu við hann.
,,Sumir segja að þetta sé erfiðasta starf í heimi því kröfurnar í Njarðvíku eru rosalegar, ég þekki það,” sagði Teitur sem tíu sinnum hefur orðið Íslandsmeistari í grænu.