spot_img
HomeFréttirSkortur á fjármagni

Skortur á fjármagni

10:56

{mosimage}

Sigurður Elvar Þórólfsson blaðamaður á Morgunblaðinu skrifaði blaðið í gær frétt um fráveru Hlyns Bæringssonar og Sigurðar Þorvaldssonar í landsliðinu og þar kom m.a. fram að fjárskortur væri vandamálið. Í blaðinu í dag er svo viðtal við Friðrik Inga Rúnarsson framkvæmdastjóra KKÍ og einnig skrifar Sigurður Elvar pistil um málið. Karfan.is hefur fengið leyfi til að birta þessi skrif Sigurðar Elvars og hér kemur fyrst viðtalið við Hlyn sem eins og fyrr segir birtist í Morgunblaðinu í gær.

Hér kemur viðtalið. 

 

Hlynur Bæringsson og Sigurður Þorvaldsson, leikmenn úrvalsdeildarliðsins Snæfells úr Stykkishólmi,

gefa ekki kost á sér í íslenska landsliðið í körfuknattleik af persónulegum ástæðum. Sigurður  Ingimundarson landsliðsþjálfari tilkynnti 20 manna æfingahóp í fyrradag þar sem átta nýliðar voru

valdir en nöfn þeirra Hlyns og Sigurðar voru ekki sjáanleg.

 

„Þetta var ekki skemmtilegasta símtal sem ég hef átt þegar ég lét Sigurð Ingimundarson vita af ákvörðun minni. Ég hef átt gott samstarf við Sigurð í gegnum tíðina og ákvörðun mín er ekki tekin vegna óánægju með störf hans. Þvert á móti. Ég hef einfaldlega ekki fjármuni eða tíma í landsliðið. Við greiðum sjálfir þann kostnað sem til fellur vegna ferða okkar á landsliðsæfingar. Ég er alls ekki að gagnrýna KKÍ, landsliðsnefndina eða landsliðsþjálfarann. KKÍ á einfaldlega ekki fjármuni til þess að aðstoða okkur við ferðakostnaðinn. Ég á sjálfur ekki peninga til þess að koma mér á landsliðsæfingar

og því vel ég að gefa ekki kost á mér. Það sama er að segja af Sigurði,“ sagði Hlynur en hann stendur í ströngu utan vallar þar sem hann er að byggja sér hús og í haust á hann von á sínu fyrsta barni.

Hlynur nefnir einnig að mikið vinnutap bætist ofaná ferðakostnaðinn og segir hann að kostnaðurinn

við landsliðsæfingar hlaupi á hundruðum þúsunda kr.

 

„Í fyrrasumar fórum við Sigurður saman á flestar æfingar landsliðsins frá Stykkishólmi og æfingarnar voru ýmist í Reykjavík eða á Reykjanesi. Við hættum að vinna á miðjum degi til þess að fara suður á æfingar og við komum ekki til baka fyrr en um miðnætti. Þetta er törn sem tekur á líkamlega og ekki síst fjárhagslega og ég er einfaldlega ekki tilbúinn í þetta verkefni. Það gæti að sjálfsögðu breyst ef KKÍ myndi ákveða að hafa allar æfingar landsliðsins hérna í Stykkishólmi.“ Snæfell tapaði í undanúrslitum Íslandsmótsins gegn KR í framlengdum oddaleik og segir Hlynur að leikmenn Snæfells séu enn að sleikja sárin eftir tapið gegn KR. „Við erum staðráðnir í því að gera betur á næsta keppnistímabili. Eins og staðan er á liðinu núna þá bendir allt til þess að flestir leikmenn liðsins verði áfram á næsta ári. Ég, Sigurður Þorvaldsson og Ingvaldur Magni Hafsteinsson verðum allir áfram. Geoff Kotilla verður áfram þjálfari og bandaríski leikmaðurinn Justin Shouse hefur gefið það í skyn að hann ætli að vera áfram með okkur. Ég held að það hafi varla gerst áður í sögu Snæfells að nánast allir leikmenn liðsins haldi áfram tvö tímabil í röð og ég er því mjög bjartsýnn á næstu leiktíð,“ sagði Hlynur Bæringsson.

 

Sigurður Elvar Þórólfsson – [email protected] , birt í Morgunblaðinu 11. maí 2007

 

Mynd: www.vf.is

 

Fréttir
- Auglýsing -