spot_img
HomeFréttirGengur ekki upp til lengri tíma litið

Gengur ekki upp til lengri tíma litið

11:04

{mosimage}

Sigurður Elvar Þórólfsson blaðamaður á Morgunblaðinu skrifaði blaðið í gær frétt um fráveru Hlyns Bæringssonar og Sigurðar Þorvaldssonar í landsliðinu og þar kom m.a. fram að fjárskortur væri vandamálið. Í blaðinu í dag er svo viðtal við Friðrik Inga Rúnarsson framkvæmdastjóra KKÍ og einnig skrifar Sigurður Elvar pistil um málið. Karfan.is hefur fengið leyfi til að birta þessi skrif Sigurðar Elvars og hér kemur viðtal hans við Friðrik Inga í blaðinu í dag.

HLYNUR Bæringsson leikmaður úrvalsdeildarliðs Snæfells í körfuknattleik sagði í gær í viðtali við

Morgunblaðið að hann gæfi ekki kost á sér í landsliðsverkefni sumarsins þar sem hann hefði ekki fjármagn til þess að standa straum af kostnaði við ferðir á æfingar og einnig væri gríðarlegt vinnutap

sem fylgdi þátttöku í landsliðsverkefnum. Friðrik Ingi Rúnarsson framkvæmdastjóri KKÍ segir að

það sé stefna stjórnar KKÍ að landsliðsmenn og -konur þurfi ekki að borga með sér í landsliðsverkefni.

 

Hlynur og liðsfélagi hans Sigurður Þorvaldsson hafa ekið saman á æfingar á höfuðborgarsvæðinu og

Reykjanesi frá Stykkishólmi og segir Hlynur að þrátt fyrir velvilja KKÍ hafi hann ekki séð sér fært um að gefa kost á sér í landsliðið. Friðrik Ingi Rúnarsson framkvæmdastjóri KKÍ sagði í samtali við

Morgunblaðið í gær að KKÍ væri með skýra stefnu í svona málum. „Það er stefna stjórnar Körfuknattleikssambandsins að þeir leikmenn sem valdir eru í A-landslið þurfi ekki að greiða sjálfir ferðakostnað sem til fellur við æfingar og keppni á vegum landsliðsins. Við höfum tekið þátt í ferðakostnaði leikmanna sem koma frá liðum utan af landi en eflaust hefur sá stuðningur ekki verið nógu mikill að mati margra. Staðreyndin er einfaldlega sú að fjárhagsstaða KKÍ er með þeim hætti

að við þurfum að skera niður á mörgum sviðum í rekstri okkar. Og það bitnar mest á starfi yngri landsliða okkar. Við erum allir af vilja gerðir að aðstoða landsliðsleikmenn í slíkum tilvikum en eflaust

getum við gert enn betur á þessu sviði,“ sagði Friðrik. Taprekstur var á síðasta rekstrarári KKÍ en heildarvelta sambandsins er um 50 millj. kr. og tapið var um 14 millj. kr. „Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir því hve erfiður rekstur margra sérsambanda er á Íslandi. Sem dæmi má nefna að ég er núna staddur á Evrópuþingi körfuknattleikssambanda í Póllandi og í samtölum mínum við fulltrúa frá öðrum þjóðum þá kemur það í ljós að ríkisvaldið stendur á bak við rekstrarkostnað landsliða í flestum Evrópulöndum. Hjá okkur er þessu öfugt farið. Af 50 millj. kr. heildarveltu erum við að fá um 2,6 millj. kr. í beina styrki frá hinu opinbera, og tekjur okkar frá Íslenskri getspá (Lottó) eru um 4 millj. kr. á ári. Eftir standa um 44 millj. kr. sem við verðum að ná í með öðrum hætti en til lengri tíma litið þá gengur þetta dæmi ekki upp.“

 Umsvifin hafa aukist  

„Á nýliðnu ársþingi okkar tilkynnti stjórn KKÍ að dregið yrði úr umsvifum yngri landsliða KKÍ, en mörg landslið hafa náð frábærum árangri á undanförnum árum. Ég hef verið spurður að því hérna úti í Póllandi hvers vegna Íslendingar verði ekki með á öllum mótum líkt og áður og ég á erfitt með að útskýra það að við eigum ekki fjármagn til þess að senda þessi lið í keppni. Á sama tíma er ég spurður að því hvernig íslenska U-18 ára landsliðið fór að því að

leggja Frakka að velli og Frakkar urðu síðan Evrópumeistarar,“ sagði Friðrik Ingi.

 

Á undanförnum þremur árum hafa umsvif í keppnishaldi yngri landsliða aukist gríðarlega og keppt er árlega á Norðurlanda- og Evrópumótum. „Við erum að senda 48 krakka á Norðurlandamót í þessum mánuði og hvert þeirra greiðir 60.000 kr. vegna kostnaðar við þá ferð. Þetta er sá raunveruleiki sem

við búum við en það er engin uppgjöf í okkar hreyfingu. Við finnum leiðir til þess að bæta rekstrarstöðu KKÍ og körfuboltinn er svo sannarlega á uppleið á Íslandi,“ sagði Friðrik Ingi.

 

Sigurður Elvar Þórólfsson – [email protected] , birt í Morgunblaðinu 12. maí 2007

 

Mynd: Jón Björn Ólafsson / karfan.is

Fréttir
- Auglýsing -