spot_img
HomeFréttirGuðjón: Stefnum á fyrsta sætið

Guðjón: Stefnum á fyrsta sætið

13:00

{mosimage}

 

(Guðjón Skúlason, landsliðsþjálfari hefur trú á því að Ísland geti komist upp úr riðlinum) 

 

Íslenska kvennalandsliðið á enn góðan möguleika á því að komast áfram í B-deild Evrópukeppninnar en landsliðsþjálfarinn Guðjón Skúlason segir að ef svo eigi að vera sé sigur bráðnauðsynlegur gegn Hollendingum í september. Íslenska liðið er í 3. sæti í fjögurra liða riðli með fjögur stig, tveimur stigum á eftir toppliði Hollendinga. Ísland og Holland mætast í fyrsta leik síðari hluta riðlakeppninnar þann 1. september næstkomandi en það verður jafnframt síðasti heimaleikur íslenska liðsins í riðlakeppninni.

 

„Það fór allt til fjandans hjá okkur hér heima gegn Norðmönnum og það var leikur sem við áttum ekki að tapa. Ósigur gegn Hollandi í næsta leik þýðir að við eigum ekki möguleika á 1. sætinu í riðlinum,” sagði Guðjón í samtali við Karfan.is en hann hefur verið að kalla saman landsliðshópinn á léttar æfingar en harkan sex tekur ekki við fyrr en eftir Verzlunarmannahelgi.

 

„Við ætlum að æfa nokkrum sinnum í júlí og svo fer allt á fullt eftir Verzlunarmannahelgina. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í keppninni og það væri frábær árangur að ná því að komast upp í fyrstu tilraun. Ég væri persónulega sáttur með 2. sætið í riðlinum en fyrst möguleikinn er fyrir hendi á því að vinna Hollendinga þá verður allt gefið í þetta verkefni og stefnan sett á það að vinna riðilinn,” sagði Guðjón. Ekki er um milliriðla að ræða í þessari keppni heldur mun það lið sem hafna í 1. sæti tryggja sér nafnbótina A-þjóð meðal körfuboltaþjóða og færast upp í styrkleikaflokk A.

 

Íslenska liðið mun ekki leika neina æfingaleiki við aðrar þjóðir fram að leiknum gegn Hollandi en eins og áður hefur verið greint frá á Körfuknattleikssamband Íslands ekki gott með að senda A-landsliðin út nema í allra nauðsynlegustu verkefnin sökum bágrar fjárhagsstöðu. Guðjóni þótti því líklegt að æfingaleikir yrðu settir upp gegn úrvalsliðum skipuðum leikmönnum sem ekki komust í landsliðið sem og leikjum gegn karlaliðum.

 

Nokkuð vísti þykir að þær María Ben Erlingsdóttir og Helena Sverrisdóttir geti leikið með fyrstu tvo leikina í síðari hluta riðlakeppninnar en ekki hefur fengist á hreint frá skólum þeirra í Bandaríkjunum hvort þær geti leikið þriðja og síðasta leikinn sem verður gegn Írum á útivelli þann 15. september.

Fréttir
- Auglýsing -