spot_img
HomeFréttirÓlympíudraumur Íslands á enda eftir tap fyrir Úkraínu

Ólympíudraumur Íslands á enda eftir tap fyrir Úkraínu

Ísland mátti þola tap í dag í Istanbúl fyrir Úkraínu í öðrum leik sínum í forkeppni Ólympíuleikanna 2023. Liðið hefur því tapað tveimur leikjum á jafnmörgum dögum, en lokaleikur þeirra í mótinu er komandi þriðjudag gegn Búlgaríu.

Fyrir leik

Ísland að sjálfsögðu mætti Úkraínu í tvígang í síðustu undankeppni heimsmeistaramótsins. Þar vann Ísland heimaleikinn, en tapaði svo fyrir þeim úti í Lettlandi í leik sem líklega verður að teljast eitt af meiri svekkelsum liðsins á síðustu árum, því með sigri þar hefðu þeir verið á leiðinni á lokamót heimsmeistaramótsins í fyrsta skipti. Liðin bæði nokkuð breytt frá þessum tveimur gluggum sem þau mættust í í þessari undankeppni HM, en fyrir leik mætti segja að liðin séu nokkuð svipuð á styrk, með tilliti til þeirra deilda sem leikmenn liðanna leika í allavegana.

Byrjunarlið Íslands

Ægir Þór Steinarsson, Elvar Már Friðriksson, Jón Axel Guðmundsson, Styrmir Snær Þrastarson og Tryggvi Snær Hlinason.

Gangur leiks

Íslenska liðið fór nokkuð hægt af stað í leiknum og voru snemma komnir 9 stigum undir, 6-15. Ná svo að laga stöðuna undir lok fyrsta fjórðungs, en staðan fyrir annan er 18-17 Íslandi í vil eftir að Sigtryggur Arnar Björnsson setur þrist um leið og klukkan rennur út. Leikurinn er svo í miklu jafnvægi í upphafi annars fjórðungs þar sem liðin skiptast í nokkur skipti á forystunni, en undir lok hálfleiksins nær Úkraína góðu áhlaupi sem setur þá 9 stigum yfir áður en liðin halda til búningsherbergja, 34-43.

Stigahæstur fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var Tryggvi Snær með 12 stig, en honum næstir voru Ægir Þór og Elvar Már með 6 stig hvor. Elvar Már hafði komist ágætlega af stað í fyrri hálfleiknum, en var hinsvegar komin í villuvandræði í fyrri hálfleiknum með 3 villur á sínum fyrstu 16 mínútum spiluðum.

Nokkuð jafnræði er á með liðinum í upphafi seinni hálfleiksins, þar sem Úkraína nær meira og minna að halda í fenginn hlut. Íslenska liðið virðist eiga erfitt með að ná að skora tvær körfur í röð á þessum tímapunkti, spila ágætis vörn, en leyfa Úkraínu að taka næstum öll fráköstin á báðum endum vallarins. Úkraína nær enn að bæta í undir lok þriðja fjórðungs og eru þægilegum 16 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 50-66. Íslenska liðið náði ekki að gera neitt álitlegt áhlaup að forystu andstæðingana í fjórða leikhlutanum, sem undir lokin sigla óþarflega þægilegum 13 stiga sigur í höfn, 69-82.

Atkvæðamestir

Tryggvi Snær var bestur í liði Íslands í dag með 18 stig og 9 fráköst. Honum næstir voru Elvar Már með 13 stig, 3 stoðsendingar, Ægir Þór með 10 stig, 4 fráköst, 4 stoðsendingar og Kristinn Pálsson með 10 stig, 4 fráköst og 3 stolna bolta.

Kjarninn

Mikið af því sem gekk ekki upp hjá íslenska liðinu gegn Tyrklandi í gærkvöldi hélt áfram í leiknum í dag gegn Úkraínu. Áfram hélt liðið að skjóta boltanum illa úr djúpinu, þeir áttu erfitt með að taka fráköst og þeir leyfðu andstæðingnum að fara oftar á gjafalínuna.

Tapið í dag þýðir að Ísland á ekki möguleika á að vera eitt tveggja efstu liða í riðlinum hvort sem þeir vinna Búlgaríu á þriðjudag eða ekki, en líklega verða það Úkraína og Tyrkland sem fara úr riðil Íslands í undanúrslit mótsins.

Hvað svo?

Lokaleikur Íslands í riðlakeppni mótsins er komandi þriðjudag 15. ágúst gegn Búlgaríu.

Tölfræði leiks

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -