8:46
{mosimage}
Jakob Örn Sigurðarson
Landsliðsbakvörðurinn Jakob Örn Sigurðarson bíður enn eftir rétta tilboðinu fyrir næsta vetur og er líkt og félagi hans í landsliðinu og áður samherji í KR, Helgi Már Magnússon, ekki búinn að útiloka að spila með KR í vesturbænum í vetur.
„Ég veit ekki neitt eins og er og er ekki með neitt tilboð að utan. Ég er enn að leita en það er ekkert víst að ég finni mér lið. Ég gef mér eina til tvær vikur í viðbót og ef það kemur ekkert þá er alveg möguleiki á því að vera heima. Það er ekkert útilokað," segir Jakob. Þeir félagar fengu báðir tilboð frá sama liðinu í Englandi en voru ekki nógu spenntir.
„Ég fékk tilboð frá Spáni og tilboð frá Englandi en mér fannst þau ekki nógu góð eða ekki nógu spennandi. Tilboðið frá Englandi var mjög gott en mér fannst ekki nógu spennandi að fara þangað. Það hefði verið mjög gaman að spila með Helga úti en okkur fannst báðum England ekki vera nægilega spennandi staður," segir Jakob. Jakob lék með Gestiberica Vigo á Spáni í fyrra og er spenntastur fyrir að spila áfram í spænsku deildinni en veturinn á undan lék hann með Bayer Giants Leverkusen í þýsku bundesligunni.
„Mig langar mest að spila á Spáni en ég tel líkurnar á að fara þangað vera mjög litlar því öll liðin eru að byrja að æfa í vikunni og flest ef ekki öll liðin fullmönnuð," segir Jakob.
Það er ekki laust við að hjarta stuðningsmanna KR taki smá kipp við möguleikann á að Helgi Már og Jakob verði með liðinu í vetur. KR tekur nú þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn í sextán ár og reynir að verja Íslandsmeistaratitilinn en það hefur þeim svart-hvítu ekki tekist í 28 ár.
„Það getur getur orðið rosalegt lið í vesturbænum ef við komum báðir heim," segir Jakob í léttum tón en tekur fram að markmið hans líkt og Helga sé að finna sér erlent lið. Möguleikinn er samt vissulega fyrir hendi. „Ef það dettur ekkert inn þá er líklegt að ég verði heima. KR er mitt lið og það þarf eitthvað mikið að gerast að ég fari ekki þangað verði ég á Íslandi," sagði Jakob.
Fréttablaðið
Mynd: Jón Björn Ólafsson / karfan.is