spot_img
HomeFréttirLogi: Við mættum með töffarasvipinn

Logi: Við mættum með töffarasvipinn

10:00

{mosimage}

 

(Töffarasvipurinn) 

 

Mikill taugatitringur var í Laugardalshöll í gærkvöldi þegar Logi Gunnarsson fór á vítalínuna í stöðunni 72-75 Georgíumönnum í vil. Undirritaður gerði fastlega ráð fyrir því að í þessari stöðu myndi Logi reyna að hitta úr fyrra vítinu og brenna af því síðara og freista þess að ná sóknarfrákastinu. Það reyndist hins vegar ekki vera dagskipunin.

 

Örfáar sekúndur voru til leiksloka og var planið að skora úr báðum vítaskotunum og minnka muninn í 74-75. Síðan átti að brjóta strax á gestunum og freista þess að ná annarri sókn eftir leikhlé með því að fá boltann á miðjunni. Annað kom á daginn.

 

Logi hitti úr fyrra vítinu og brenndi af því síðara en bæði hann og Jakob Örn sögðu í viðtali við RÚV eftir leikinn að bæði vítin hefðu átt að fara ofan í þannig að Logi brenndi ekki af síðara vítinu viljandi eins og margir hafa viljað halda fram og þar á meðal undirritaður.

 

Hvað gerðist næst fer á spjöld íslenskrar körfuknattleikssögu enda mikið afrek að leggja jafn sterka þjóð og Georgíumenn að velli. Karfan.is náði tali af Loga í leikslok sem sagði að íslenska liðið gæti vel leikið á meðal bestu þjóða álfunnar.

 

,,Ég fékk séns á því í byrjun að taka mín skot og vaða á körfuna og í seinni hálfleik tóku aðrir við keflinu og við sýndum það bara að við erum gott lið,” sagði Logi sem gerði 17 stig í leiknum og 12 fyrstu stig Íslands.

 

,,Við ætluðum okkur að vera naglar í leiknum og ætluðum ekki að leyfa þeim að ýta okkur eitt né neitt. Við bara mættum með töffarasvip í leikinn,” sagði Logi. ,,Við vildum ekki leyfa Georgíu að vera stóru og sterku karlarnir í leiknum, við ætluðum að vera í því hlutverki. Þetta sýnir að leikurinn snýst mikið um hugarfarið, ekki kerfin eða leikstíllinn, heldur bara mæta á svæðið og vera naglar.”

 

Ísland hefur slökkt í A-þjóða vonum Georgíumanna en Logi hafði svör á reiðum höndum. ,,Við sýndum það að við getum leikið með betri liðum Evrópu og unnum sterkt lið sem á heima í A-hópi. Þeir ætluðu sér upp og við gætum verið búnir að eyðileggja það en okkur er alveg sama,” sagði Logi og brosti sínu breiðasta.

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -