spot_img
HomeFréttirEM: Litháar unnu Slóvena örugglega

EM: Litháar unnu Slóvena örugglega

22:15

{mosimage}

Ramunas Siskauskas var stigahæstur Litháa 

F riðli Evrópumótsins lauk í dag og sýndu Litháar klærnar og gjörsigruðu Slóvena en bæði lið voru taplaus fyrir leikinn, þá björguðu Þjóðverjar ærunni og unnu Ítali og komust því í 8 liða úrslitin.

{mosimage}

Johannes Herber kom heitur af bekk Þjóðverja 

Það lá mikið undir í leik Þjóðverja og Ítala og Ítalir lögðu mikla áherslu á að stoppa Dirk Nowitzki og gekk þeim það ágætlega. En það dugði þó ekki því varamenn Þjóðverja komu sterkir inn í leiknum og Johannes Herber sem ekki hafði leikið mikið í mótinu skoraði 15 stig fyrir þá líkt og Nowitzki. Fyrir Ítali skoraði Marco Belinelli 25 stig. Þjóðverjar sigruðu 67-58.

Leikur Frakka og Tyrkja hafði enga þýðingu fyrir stöðuna í riðlinum og notuðu Frakkar hann til að undirbúa sig undir leikinn við Rússa á morgun og sigruðu 85-64. Boris Diaw leikmaður Phoenix Suns var stigahæstur Frakka með 18 stig en Kaya Peker frá spænska liðinu TAU Ceramica skoraði 19 fyrir Tyrkina.

Lokaleikur dagsins var svo viðureign taplausu liðanna Litháen og Slóveníu. Litháar byrjuðu leikinn betur en Slóvenar voru aldrei langt undan og í hálfleik leiddu Litháar 44-41. En í þriðja leikhluta sýndu Litháar mátt sinn og skoruðu 19 stig gegn 8 stigum Slóvena og unnu leikinn að lokum 80-61. Ramunas Siskauskas skoraði 21 stig fyrir Litháa en Jaka Lakovic skoraði 15 fyrir Slóvena. Sarunas Jasikevicius meiddist á læri í fyrri hálfleik og lék ekkert í þeim seinni.

Það er því ljóst að í undanúrslitum á morgun mætast Spánverjar og Þjóðverjar annars vegar og hins vegar Rússar og Frakkar. Á föstudag mætast svo Litháar og Króatar annars vegar og Slóvenar og Grikkir hins vegar.

[email protected]

Mynd: www.eurobasket2007.org

Fréttir
- Auglýsing -