spot_img
HomeFréttir?Upplifun að láta tækla sig í tætlur"

?Upplifun að láta tækla sig í tætlur”

7:00

{mosimage}

Ólafur Torfason í leik með Þórsurum síðasta vetur 

 

Í Morgunblaðinu á mánudag er áhugavert viðtal við Þórsarann Ólaf H. Torfason en hann lék á sínum tíma fjölda unglingalandsleikja.

ÓLAFUR Halldór Torfason, tvítugur körfuknattleiksmaður frá Akureyri, var meðal leikmanna Appalachian State háskólaliðsins í amerískum fótbolta sem lagði lið Michigan á ævintýralegan hátt um fyrri helgi. Þá vörðu varnarmennskólans í tvígang frá sparkara Michigan, meðal annars á lokasekúndu leiksins og náðu að sigra. 

„Þetta var ævintýralegur sigur. Þetta var fyrsti leikur tímabilsins og hérna í Bandaríkjunum eru mismunandi deildir en í fyrstu tveimur leikjum deildarinnar geta menn lent á móti hvaða liði sem er, sama í hvaða deild það er. Við lentum á móti Michigan sem er eitt af stærstu liðunum hérna í háskólaboltanum. Það voru 110.000 áhorfendur og gríðarleg stemmning. Þetta var örugglega ein merkilegasta upplifun sem ég hef lent í,“ sagði Ólafur Halldór í samtali við Morgunblaðið. „Það er ekki oft sem  varnarmönnum tekst að verja skot frá sparkara, en við gerðum það tvisvar í þessum leik – sem er mjög sérstakt. En málið er að við vorum búnir að æfa þetta án afláts fyrir leikinn,“ sagði Ólafur.  

Varnarmaður og annar sparkari

Hann leikur sem sparkari ásamt öðrum strák og fæst einnig við að verjast mótherjunum. „Ég er annar sparkari í liðinu og leik líka í vörninni. Er einn af fjórum sem eru fyrir aftan sjö manna varnarmúrinn sem settur er upp,“ segir Ólafur og segir lokamínútur leiksins helst hafa minnt á dramatískt atriði í bíómynd.

Ólafur fór til Bandaríkjanna á sínum tíma sem skiptinemi og er nú búinn að vera þar í þrjú ár og meistari með sínu liði síðustu tvö árin. „Ég fór upphaflega út til að spila körfubolta. En þetta er lítill skóli og ekki mjög mikið af körfuboltamönnum hér. Ég er hins vegar ágætis íþróttamaður og kíkti á eina fótboltaæfingu og komst strax í liðið bæði sem sparkari og varnarmaður. Ég fékk því að vera með í því og komst í úrvalslið Norður- Karolínu sem sparkari. 

Ekki hættur í körfubolta

Ég spila því ekki mikinn körfubolta, en samt aðeins. Það er deild innan fótboltaliðsins og ég spila með þeim og svo kem ég heim og spila einhverja leiki með Þór í kring um jólin. Ég er alls ekki hættur í körfunni,“ sagði Ólafur.

Hann var á sínum tíma í unglingalandsliðinu þar sem leikmenn eru fæddir 1987. Liðið sigraði í forkeppni EM og átti að taka þátt í milliriðli í Tyrklandi en Körfuknattleikssambandið ákvað að senda liðið ekki út vegna ótryggs ástands þar. Benedikt Guðmundsson var þjálfari liðsins.

 

„Ólafur spilaði líka í næsta landsliði fyrir ofan sig og var lykilmaður þar. Hann er ógurlega hraustur og mér er til efs að ég hafi séð menn jafn grimma í fráköstum – hann tekur sér mun stærri leikmenn undir körfunni. Auk þess er hann frábær persóna sem gott er að hafa í hópi,“ sagði Benedikt um Ólaf.  

 

Lítið séð svona lagaðan bolta

 

Hann sagðist lítið hafa snert svona lagaðan bolta áður en hann fór út, var vanari hefðbundnu lagi á bolta. „Ég hafði séð svona bolta í bíómyndum og sjónvarpi, en þetta kom mjög fljótt eftir að maður byrjaði enda ekki þverfótað fyrir fótbolta hér í fjölmiðlum. Þetta er rosalega skemmtileg íþrótt og bara það að láta tækla sig í tætlur er eitthvað sem maður upplifir ekki annars staðar. Það er upplifun. Það eru strákar hjá okkur sem eru 130-140 kíló og maður er að æfa á móti þeim og það er vel tekið á því,“ sagði Ólafur sem er sonur Torfa Ólafssonar aflraunamanns sem á sínum keppnisárum gekk undir nafninu Loðfíllinn.

 

„Ég er búinn að þyngjast vel í lyftingaherberginu hérna og er kominn vel yfir hundraðkallinn, en ég er um 193 sentimetrar. Við æfum átta sinnum í viku, þrisvar erum við í fullum gír, tvisvar er labbað í gegnum kerfin og svo eru lyftingar og hlaup þrisvar í viku þannig að maður er í fínu formi, það vantar ekki. Þetta er fullorðinsprógramm hjá okkur og fullt af þjálfurum og aðstoðarfólki sem er okkur til aðstoðar,“ sagði Ólafur. 

Var klukkutíma að komast í búninginn

Hann sagði búninginn sem leikmenn klæðast ekki eins rosalegan og menn gætu haldið. „Ég gæti trúað að þegar ég fór í fyrsta sinn í búning hafi ég verið um klukkutíma að komast í gallann. En svo venst þetta eins og annað. Búningurinn er ekki eins þungur og mikill og fólk gæti haldið. Það eru axlahlífar, hjálmur og svo hlífar á læri og hné og svo gómur fyrir tennurnar. Svo verða menn að vera með grímu,“ sagði Ólafur. 

Morgunblaðið 

Mynd: www.thorsport.is

Fréttir
- Auglýsing -