spot_img
HomeFréttirEM: Háspenna í 8 liða úrslitum

EM: Háspenna í 8 liða úrslitum

6:30

{mosimage}

Theodoras Papaloukas tryggði Grikkjum sigur á Slóvenum 

Tveir seinni leikir áttaliða úrslita Evrópumótsins voru vægast sagt stórkostlegir. Sennan var slík að búast má við að einhversstaðar í Evrópu hafi menn tryllst úr reiði eða gleði.

 

Fyrri leikurinn var leikur Litháa og Króata. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann, liðin skiptust á að hafa forystuna og mestur varð munurinn 7 stig, 72-65 fyrir Litháa þegar 3:24 voru eftir af leiknum. Króatar minnkuðu muninn í 72-70 og 1:02 eftir, Darius Songalia skoraði 2 stig fyrir Litháa og 46 sekúndur eftir. Hann fékk svo dæmda á sig óíþróttamannslega villu þegar 27 sekúndur voru eftir og Zoran Planinic skoraði úr 2 vítum og Króatar fengu boltann aftur við miðlínu. Marko Popovic tók þriggja stiga skot þegar 3 sekúndur voru eftir en hitti ekki en Zoran Planinic náði sóknarfrákastinu og Rimantas Kaukenas braut á honum og 1 sekúnda eftir á klukkunni. Planinic gat því tryggt Króötum framlengingu en taugar hans brugðust og hann klikkaði á báðum skotunum, lokatölur 74-72. Litháar enn taplausir og komnir í undanúrslit þar sem þeir mæta Rússum. Darius Songalia leikmaður Washington Wizards var stigahæstur Litháa með 20 stig en Tau Ceramicaleikmaðurinn, Zoran Planinic skoraði 16 fyrir Króata.

Seinni leikurinn var ekki síður spennandi, en það var leikur Slóvena og Grikkja. Fyrri hálfleikur var hnífjafn en í þeim þriðja sigu framúr og komust 13 stigum yfir og leiddu með 11 í lok þriðja leikhluta. Í upphafi þess fjórða komust þeir 14 stigum yfir og þegar 1:37 var eftir leiddu Slóvenar 62-53. En þá tók Theodoros Papaloukas, leikmaður CSKA Moskva,  til sinna ráða og skoraði 5 stig í röð, stal svo boltanum og félagi hans úr CSKA Moskva, Nikolaos Zisis, skoraði þriggja stiga körfu og staðan orðin 62-61 og 33 sekúndur eftir. Þegar 7 sekúndur voru svo eftir skoraði Papaloukas úr layupi og Evrópumeistararnir sigruðu 63-62. Grikkir sýndu í þessum leik hversu reynslumiklir þeir eru og að það má aldrei gefast upp, þeir unnu síðustu tvær og hálfa mínútuna 14-1. Papaloukas var stigahæstur með 17 stig, þar af 11 í síðasta leikhluta, en kappinn hefur valdið mörgum vonbrigðum í mótinu, þessi frábæri leikmaður sýnir þó enn og aftur að hann bregst ekki á ögurstundu. Radoslav Nesterovic leikmaður Toronto Raptors var stigahæstur Slóvena með 16 stig en Slóvenar hljóta að vera mjög svekktir eftir tvo síðustu leiki, þeir byrjuðu mótið mjög vel og töpuðu ekki fyrr en gegn Litháum á miðvikudag og svo gegn Grikkjum og spila því einungis um 5.-8. sætið. Grikkja býður að mæta Heimsmeisturum og heimamönnum Spánverjum í undanúrslitum en liðin mættust í milliriðli þar sem Spánverjar sigruðu 76-58.

[email protected]

Mynd: www.eurobasket2007.org

Fréttir
- Auglýsing -