10:34
{mosimage}
Saulius Stombergas fyrirliði Litháen tekur við Evróputitlinum 2003
Undanúrslit Evrópumótsins fara fram í dag en einnig er leikið í keppni um sæti 5 til 8 og liggur einnig mikið undir í þeirri keppni, baráttu um sæti á Ólympíuleikunum.
Klukkan 12:00 eigast Frakkar og Króatar við og klukkan 14:30 mætast Þjóðverjar og Slóvenar. Sigurvegararnir tryggja sér sæti í forkeppni Ólympíuleikanna en tapliðin þurfa að leika um síðasta sætið í þeirri keppni. Frakkar og Króatar hafa ekki mæst í mótinu fyrr en Slóvenar sigruðu Þjóðverja 77-47 í milliriðli.
Undanúrslitin sjálf hefjast svo klukkan 17:00 þegar Spánn og Grikkland eigast við en liðin mættust í milliriðli þar sem Spánverjar sigruðu 76-58. Þá er þetta einnig stórleikur þar sem Spánverjar eru Heimsmeistarar en Grikkir Evrópumeistarar. Spánverjar hafa aldrei orðið Evrópumeistarar en hafa fimm sinnum tapað úrslitaleiknum og þá hafa þeir þrisvar unnið brons. Grikkir hafa hinsvegar tvisvar orðið meistarar, 1987 og 2005, þá hafa þeir einu sinni tapað úrslitaleik og unnið eitt brons.
Hinn undanúrslitaleikurinn hefst klukkan 19:30 en það er viðureign Rússa og Litháa sem forðum léku saman undir merkjum Sovétríkjanna. Rússar hafa aldrei orðið Evrópumeistarar eftir að Sovétríkin liðuðust sundur en töpuðu úrslitaleiknum 1993 fyrir Þjóðverjum og þá fengu þeir brons 1997. Litháar urðu Evrópumeistarar í Svíþjóð 2003 og einnig sigruðu þeir 1937 og 1939 en töpuðu úrslitaleiknum 1997 fyrir Júgóslövum en þá fór mótið einnig fram á Spáni. Á tímum Sovétríkjanna urðu þeir Evrópumeistarar 14 sinnum, þar af 8 sinnum í röð frá 1957-71, síðast 1985 og þá tapaði liðið þrisvar úrslitaleik og fjórum sinnum unnið brons. Þeir unnu því til verðlauna í 21 Evrópukeppnum af 22 í röð, í þeirri einu sem þeir unnu ekki til verðlauna var 1949 en þá var keppnina haldin í Egyptalandi og Sovétmenn tóku ekki þátt. Í þessum 21 keppni sem þeir tóku þátt í léku þeir 170 leiki og unnu þeir 158 sem er 93% sigurhlutfall.
Mynd: www.fibaeurope.com