spot_img
HomeFréttirHelena var aðeins tveimur stigum frá stigameti Önnu Maríu

Helena var aðeins tveimur stigum frá stigameti Önnu Maríu

12:15

{mosimage}

Helena Sverrisdóttir skoraði 33 af 67 stigum íslenska landsliðsins í sigrinum á Írum í gær og var aðeins tveimur stigum frá því að jafna ellefu ára gamalt stigamet Önnu Maríu Sveinsdóttur sem skoraði 35 stig í leik gegn Möltu á Promotion Cup árið 1996. Helena varð jafnframt aðeins önnur konan til þess að brjóta 30 stiga múrinn með A-landsliði kvenna. Helena skoraði sjö tveggja stiga körfur, tvær þrigja stiga körfur og setti niður þrettán víti. Þegar Anna María setti metið þá skoraði hún ellefu tveggja stiga körfur, setti niður tvo þrista og nýtti öll sjö vítin sín.

Helena varð stigahæsti leikmaður riðlakeppni b-deildarinnar en hún skoraði 116 stig i leikjum sex eða 19,3 að meðaltali í leik. Helena skoraði tæpum tveimur stigum meira að meðaltali en Sónia Reis frá Portúgal sem kom næst á eftir henni með 17,5 stig að meðaltali í leik. Sú þriðja á listanum var hin 40 ára Raziya Mujanovic frá Bosníu sem skoraði 16,6 stig að meðaltali í leik.

Helena bætti sinn besta árangur með landsliðinu um átta stig því hún hafði mest skorað 25 stig í leik gegn Hollandi í Rotterdam í fyrra sem var einmitt fyrsti leikur kvennalandsliðsins í Evrópukeppni. Leikurinn gegn Írlandi í gær var aftur á móti fyrsti sigurleikur kvennalandsliðsins á útivelli í Evrópukeppni. Helena á nú þrjá leiki á topp tíu alveg eins og Anna María Sveinsdóttir sem er í 1. og 3. sæti með fyrrnefndan 35 stiga leik gegn Möltu á Promotion Cup 27. júní 1996 og svo 32 stiga leik gegn Kýpur á Smáþjóðaleikum 18. maí 1989. Anna María skoraði 38% stiga íslenska liðsins þegar hún setti metið en Helena skoraði 49,3% stiga liðsins í gær.

Það er óhætt að segja að Helena hafi haldið uppi stigaskori landsliðsins í síðustu tveimur leikjum því hún skoraði 33 af 67 stigum liðsins í leiknum gegn Írlandi í gærkvöldi og svo 18 af 38 stigum liðsins gegn Noregi um síðustu helgi. Helena skoraði 13 stigum meira en næsti leikmaður íslenska liðsins í leiknum í Osló og heilum 27 stigum meira en næsti leikmaður í leiknum í Dublin.

Flest stig í einum leik fyrir kvennlandsliðið:
Anna María Sveinsdóttir 35 (gegn Möltu á Promotion Cup, 27.6.1996)
Helena Sverrisdóttir 33 (gegn Írlandi í EM-b, 15.9.2007)
Anna María Sveinsdóttir 32 (gegn Kýpur á Smáþjóðaleikum, 18.5.1989)
Birna Valgarðsdóttir 27 (gegn Andorra á Promotion Cup, 28.7.2004)
Helena Sverrisdóttir 25 (gegn Hollandi í EM-b, 9.9.2006)
Birna Valgarðsdóttir 25 (gegn Möltu á Promotion Cup 30.7.2004)
Erla Þorsteinsdóttir 24 (gegn Möltu á Promotion Cup 18.6.1998)
Anna María Sveinsdóttir 24 (gegn Andorra á Promotion Cup 26.6.1996)
Helena Sverrisdóttir 24 (gegn Englandi í vináttuleik, 29.12.2004)
Birna Valgarðsdóttir 23 (gegn Englandi í vináttuleik, 29.12.2004)

Stig Helenu eftir leikhlutum í leiknum gegn Írlandi
1. leikhluti: 6 stig, hitti úr 2 af 3 skotum og 2 af 4 vítum.
2. leikhluti: 10 stig, hitti úr 4 af 7 skotum og 1 af 1 vítum.
3. leikhluti: 10 stig, hitti úr 2 af 4 skotum og 5 af 5 vítum.
4. leikhluti: 7 stig, hitti úr 1 af 3 skotum og 5 af 7 vítum.
Samtals: 33 stig, hitti úr 9 af 17 skotum og 13 af 17 vítum.

www.kki.is

Mynd: Snorri Örn Arnaldsson

Fréttir
- Auglýsing -