21:36
{mosimage}
Rússland Evrópumeistarar
Rússar urðu nú rétt í þessu Evrópumeistarar þegar þeir sigruðu Spánverja 60-59 eftir að hafa verið undir allan leikinn en J.R. Holden skoraði sigurkörfuna þegar 2 sekúndur voru eftir. Litháar tryggðu sér síðasta örugga sætið á Ólympíuleikunum og Slóvenar síðasta sætið í forkeppni leikanna.
Fyrsti leikur dagsins var leikur Frakka og Slóvena um sjöunda og síðasta sætið í forkeppni Ólympíuleikanna. Leikurinn var jafn fyrstu þrjá leikhlutana og Frakkar höfðu jafnvel ívið betur en í fjórða leikhluta skorðu Slóvenar 37 stig gegn 17 stigum Frakka og leikurinn endaði 88-74. Jaka Lakovic skoraði 26 stig fyrir Slóvena en Tony Parker 31 fyrir Frakka.
Þjóðverjar enduðu mótið eins og þeir byrjuðu það, með sigrum. Í dag mættu þeir Króötum sem leiddu í rúmar 30 mínútur en Dirk Nowitzki og félagar unnu þetta í lokin 80-71. Dirk var með 31 stig og 12 fráköst fyrir Þjóðverja en Marko Banic skoraði 16 fyrir Króata.
Litháar björguðu andlitinu í dag og tryggðu sér öruggt sæti á Ólympíuleikunum þegar þeir sigruðu Evrópumeistara Grikki 78-69 í leiknum um bronsið. Leikurinn var jafn allan tímann en Litháar voru skrefinu á undan allan tímann. Nikolaos Zisis var stigahæstur Grikkja með 23 stig en Ksistof Lavrinovic skoraði 19 fyrir Litháa.
Þá var komið að úrslitaleiknum, leik Spánverja og Rússa en bæði lið hafa átt frábært mót, hvort lið hafði tapað einum leik fyrir úrslitaleikinn. Spánverjar voru betri aðilinn allan leikinn og leiddu í tæpar 39 mínútur af leiknum þar af um tíma með 10 stigum. Rússar komust fyrst yfir í upphafi fjórða leikhluta en Spánverjar komust aftur framúr og Rússar komust svo ekki aftur yfir fyrr en 2 sekúndur voru eftir þegar Jon Robert Holden skoraði sigurkörfuna, 60-59 og Rússar unnu sinn fyrsta Evróputitil. Á hinn bóginn var þetta sjötti úrslitaleikur Evrópumóts sem Spánverjar tapa. Andrei Kirilenko var stigahæstur Rússa með 17 stig en einnig átti Victor Khryapa frá Chicago Bulls góðan leik, tók 12 fráköst. Caldreon var bestur Spánverja og skoraði 15 stig en einnig átti Jorge Garbajosa góðan leik.
Mynd: www.eurobasket2007.org