7:39
{mosimage}
HÖRÐUR Axel Vilhjálmsson, landsliðsmaður í körfuknattleik verður ekki í herbúðum ítalska stórliðsins Treviso Benetton í vetur en hann hefur æft með liðinu undanfarnar fjórar vikur. Hörður sagði í gær við Morgunblaðið að hann hafi komist að því eftir 2 vikur að félagið hafi aldrei ætlað sér að semja við hann.
Hörður Axel hætti við að vera með landsliðinu í síðustu leikjum þess í B-deild Evrópukeppninnar vegna þess að hann taldi sig eiga möguleika á að komast að hjá ítalska stórliðinu – en raunin varð önnur. „Ég er að sjálfsögðu mjög svekktur með hvernig þetta fór allt saman. Ég fór út og fékk þau skilaboð frá umboðsmanni mínum að félagið hefði áhuga á að skoða mig og það væri möguleiki á að komast að hjá liðinu. Það reyndist ekki rétt og félagið var aðeins að nota okkur til þess að fylla í skörðin á æfingum þar sem að margir landsliðsmenn voru á Evrópumeistaramótinu á Spáni. Það verður því ekkert af þessu og ég er á heimleið. Ég lærði samt sem áður margt hérna á þessum tíma. Það voru fjórir bandarískir leikmenn á æfingum sem hafa allir verið á mála hjá NBA-liðum. Það voru mikil gæði á æfingum,“ sagði Hörður.
Hann heldur utan til Frakklands á mánudaginn en lið í efstu deild í Frakklandi hefur áhuga á að skoða Hörð. „Þetta er allt mjög óljóst og ég veit eiginlega ekkert hvað mun gerast hjá mér. Ég set stefnuna á að komast að hjá einhverju erlendu félagi en ef það tekst ekki þá verð ég á Íslandi í vetur – en ekkert endilega með mínu gamla liði, Fjölni í Grafarvogi,“ sagði Hörður.
Morgunblaðið – Sigurður Elvar
Mynd: www.karfan.is