7:06
{mosimage}
Leikmenn L.Rytas fagna
ÍSLANDSMEISTARALIÐ KR í körfuknattleik karla er með það í deiglunni að gera venslasamning
við eitt sterkasta körfuknattleikslið Evrópu, Lietuvos Rytas, frá Litháen en framkvæmdastjóri félagsins kom til landsins í gærkvöldi og mun hann funda með forsvarsmönnum KR í dag. Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, sagði í gær að ekki væri búið að ganga frá einu né neinu en vissulega væri þetta mjög spennandi dæmi.
„Þetta lið sigraði í ULEB-Evrópukeppninni árið 2005 og lék til úrslita gegn Real Madrid frá Spáni í þessari keppni sl. vor. Við hér á Íslandi gerum okkur kannski ekki nógu vel grein fyrir því hve stór íþrótt körfubolti er í Litháen. Þeir sem þekkja vel til þar segja að körfuboltinn sé íþrótt nr. 1-7 og ég held að það sé alveg rétt. Litháen er í fremstu röð í heiminum í körfubolta og gríðarlega margir góðir leikmenn hafa komið frá þessu „litla“ landi. Þeir eru að ég held með mjög líkan hugsunarhátt og við Íslendingar. Þeir leggja sig fram og berjast.“
Benedikt segir að grunnhugmyndin gangi út á það að KR geti fengið leikmenn að láni frá Rytas og einnig að þjálfarar félagsins geti sótt félagið heim og náð sér í dýrmæta reynslu og þekkingu. „Í raun er þetta allt Ágústi Björgvinssyni að þakka. Hann var hjá þessu félagi í eitt ár og hefur heimsótt það reglulega síðan. Ágúst hefur ýtt þessu úr vör en við þurfum að bíða aðeins þar til þetta verður komið í höfn.“
Rytas er í eigu aðila sem stýra einnig útgáfu á einu af stærstu dagblöðum landsins og segir Benedikt að eigandi liðsins hafi mikinn áhuga á Íslandi. „Við getum sagt að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Ágúst eigi jafnmikið í þessu samstarfi. Eigandi liðsins er enn hæstánægður með að Ísland var fyrsta ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði Litháens. Þeir vilja því allt fyrir okkur gera. Ef allt gengur upp mun liðið koma næsta haust og leika æfingaleiki hér á landi.“
Í gær kom til KR tvítugur bakvörður frá Rytas en hann mun æfa með KR næstu dagana. „Hann heitir Ernestas Ezerskis og hann tók létta æfingu með okkur í gær. Eins og staðan er hjá okkur núna eru ekki miklar líkur á því að hann verði með KR í vetur. Við erum með fullmannað lið en það er aldrei að vita hvað gerist. Það er mikil samkeppni um stöður og menn verða að vera á tánum í þessum bransa,“ sagði Benedikt. Þrír erlendir leikmenn eru í herbúðum KR nú þegar, Joshua Helm frá Bandaríkjunum, Jovan Zdravevski frá Makedóníu, en hann hefur leikið með Skallagrími undanfarin ár, og Samir Shaptahovic frá fyrrverandi Júgóslavíu.
Morgunblaðið – [email protected]
Mynd: www.uleb.net