11:15
{mosimage}
Val Ingimundarson þarf ekki að kynna fyrir körfuknattleiksáhugafólki. Hann er einn sigursælasti körfuknattleiksmaður landsins, bæði sem leikmaður og þjálfari. Í dag er hlutskipti hans að horfa á körfuboltann úr áhorfendastúkunni, hann hætti störfum sem þjálfari úrvalsdeildarliðs Skallagríms eftir síðasta tímabil, eftir að hafa stýrt Bornesingum um árabil með góðum árangri.
Ósköp þægilegt líf
En hvað kom til?„Það var algjörlega nauðsynlegt að taka pásu og hlaða batteríin eftir 21 ár í meistaraflokksþjálfun“, segir Valur og skal engan undra. „Þetta er ósköp þægilegt líf enda er ég algjörlega tilbúinn í að taka mér þessa hvíld“, segir hann. Honum líst vel á Skallagrímsliðið og þjálfara þess. „Liðið virkar mjög ferskt, þeir eiga eftir að vera mjög góðir í vetur. Þjálfarinn er að ég held mjög hæfur og ekki sakar að í Borgarnesi hafa leikmenn mjög góðan karakter og þjálfarar fá góðan vinnufrið. Ég þekki það á þeim fimm árum sem ég þjálfaði“, segir Valur
Jákvætt að fá erlenda þjálfara til landsins
En hvað með stöðu körfuboltans á Íslandi almennt í dag? „Ég sé bæði framfarir og afturfarir“, segir Valur, en segist vilja sjá meiri framfarir hjá Íslendingunum, þó margir séu að gera það gott að hans mati. „Að mínu mati vantar fleiri íslenska leikmenn með mikinn metnað til að ná langt í körfubolta. Ástæðuna veit ég ekki, kannski er of mikið af útlendingum, en svo má líka horfa þannig á það að útlendingarnir geri boltann betri og í leiðinni þá íslensku leikmenn sem hafa þann metnað að berjast um stöður við þá“, segir Valur.
Hann telur líka jákvætt að fá erlenda þjálfara inn í íslenska þjálfaraflóru. „ Það er alltaf jákvætt að fá erlenda þjálfara sem koma með nýja hluti, og skilja eitthvað eftir sig. Þeir eru ekki margir sem hafa gert það,en það hefur komið fyrir. T.d. er þjálfari Snæfellinga að skila mjög góðu starfi að mínu mati. En það er ekkert vantraust á íslenska þjálfara, það er nánast alltaf leitað til þeirra fyrst, séu einhverjir á lausu, enda eigum við töluvert af góðum þjálfurum“, segir Valur. Hann telur það þó sérstaklega jákvætt þegar menn eins og Benedikt Guðmundsson, Ingi Þór Steinþórsson og Einar Árni Jóhansson, haldi áfram að þjálfa í grasrótinni t.m.a.yngri landsliðin, þó þeir séu komnir í meistaraflokksþjálfun. „Þar hafa þeir náð góðum árangri, en Íslendingar koma seint til með að lifa af þjálfun“, segir Valur, líklega með reynslu af því.
Vantar tröll í íslenska landsliðið
En eru íslensk félagslið að leggja nægilega mikla áherslu á yngriflokkaþjálfun? „Í heildina nei, það vantar meiri metnað í yngriflokkaþjálfun. En á nokkrum stöðum er þetta í góðum málum“, er svarið.
Hvað með landsliðin? „Í dag erum við að gera mjög góða hluti, spilum flottan bolta. En það er alltaf sama vandamálið; hæð og þyngd. Ef við eignumst ekki nokkur tröll sem geta spilað, þá verðum við áfram B-þjóð, segir Valur. „En því má ekki gleyma að við sigrum alla með sömu líkamsburði og við“, segir hann.
Fer að þjálfa aftur, komi löngunin aftur
En hvernig leggst keppnin í Iceland Express deildinni í karlinn? „Ég hef ekki séð öll liðin, en held að þetta verði hörkudeild, mörg mjög góð lið“, segir Valur. Hann býst allt eins við að mæta aftur á hliðarlínuna einn góðan veðurdag. „Eitt er víst, mér finnst körfubolti ennþá mjög skemmtilegur. Og ef löngunin í að þjálfa kemur aftur þá mun ég örugglega gera það, hvenær sem það verður. Annars hlakka ég bara til að fylgjast með deildinni svona einu sinni alla vega og efast ekki um að leikmenn, þjálfarar og dómarar geri þetta að skemmtilegum vetri“, segir Valur að lokum.
Mynd: www.vf.is