spot_img
HomeFréttirRannsókn á umfjöllun dagblaða um íþróttir

Rannsókn á umfjöllun dagblaða um íþróttir

20:02

{mosimage}

Í hádeginu á föstudag fór fram fyrirlestur í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal á vegum ÍSÍ þar sem Anna Guðrún Steindórsdóttir kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar á magni íþróttafrétta í dagblöðum. Rannsókn þessa vann Anna Guðrún sem lokaverkefni í BS námi sínu við Kennaraháskóla Íslands.

Það er forvitnilegt fyrir körfuknattleiksunnendur að skoða þetta. Anna Guðrún tók öll blöð Morgunblaðsins og Fréttablaðsins árið 2006 og mældi dálksentimetra sem hver grein fékk, þó ekki fyrirsagnir og myndir.

Þarna kemur í ljós að 53,26% allra dálksentimetra fjölluðu um knattspyrnu, 27,29% um handknattleik og í þriðja sæti var körfuknattleikur með 7,75% dálksentimetra, golf var með 5,08% og aðrar greinar um 1% eða minna. 93% þess sem skrifað var í þessi tvö blöð árið 2006 fjallaði um 4 greinar.

Anna Guðrún hafði til samanburðar 10 ára gamla rannsókn og þar kom í ljós að umfjöllun um körfuknattleik hafði minnkað um 5% en umfjöllun um knattspyrnu aukist um 12% og aukist um 16% um handknattleik.

Það er einnig athyglisvert í ljósi þeirrar gagnrýni sem Morgunblaðið hefur fengið frá mörgum körfuknattleiksunnendanum að Morgunblaðið fjallar meira um körfuknattleik en Fréttablaðið. 4,75% á móti 3%. Aftur á móti fjallar Fréttablaðið meira um handbolta.

Ef skoðað er hlutfall iðkenda í hverri grein þá koma hestaíþróttir mjög illa út. Hestaíþróttir er þriðja fjölmennasta íþróttagrein landsins, 10,53% íþróttaiðkenda á landinu stunda hestaíþróttir en greinin fær aðeins 0,76% af þeim dálksentimetrum sem í boði eru. Körfuboltinn er sjötta stærsta greinin en sú grein sem fær þriðju mestu umfjöllunina. 5,89% iðkenda stunda körfuknattleik en þeir fá 7,75% dálksentimetra en t.d. handknattleikur er með 6,79% iðkenda en fær 27,29% dálksentimetra. Hlutfallslega er því misvægið mest í handboltanum, 4,02 en þar er karfan í fjórða sæti með 1,32. Akstursíþróttir lauma sér þar á milli með 2,09.

Anna Guðrún setur fram fjórar rannsóknarspurningar í byrjun og leitar svara, niðurstaðan er þessi.

1.Knattspyrna yfirgnæfir umfjöllun allra íþróttagreina ídagblöðum á Íslandi – Stóðst 

2.Fjölmennar íþróttagreinar sem fengið hafa litla umfjöllun í dagblöðum hafa fengið tiltölulega meiri umfjöllun síðastliðin ár – Felld 

3.Umfjöllun um minni atburði í fjölmennustu íþróttagreinunum fær meiri athygli en umfjöllun um framúrskarandi árangur í fámennari greinum – Stóðst 

4.Íþróttafréttaumfjöllun í dagblöðum á Íslandi er ekki í neinu samhengi við fjölda iðkenda í einstökum greinum – Stóðst 

Sannarlega áhugverð rannsókn en vert er að athuga að hér er aðeins um að ræða tvö dagblöð. Ljósvakamiðlar eru ekki skoðaðir eða heimasíður. Körfuboltinn hefur tekið netið mjög í sína þágu sem er gott, stór hluti fólks hefur aðgang að netinu og skoðar það reglulega. Sumir segja að framtíðarfjölmiðlarnir verði á netinu en ekki á prenti, það mun tíminn leiða í ljós.

En barátta körfuboltans um að koma sér á framfræi hefst í garðinum heima, með því að koma upplýsingum á framfæri og búa til efni sjálf þá taka aðrir eftir og fara að fjalla um okkar fögru íþrótt.

[email protected]

Mynd: www.isi.is

Fréttir
- Auglýsing -