18:50
{mosimage}
Baráttan í Halldóri Karlssyni hefur væntanlega ekki verið minni um helgina
Leikkerfi úr smiðju Einars Árna Jóhannssonar var grunnurinn að sigri Horsens BC í dönsku 3. deildinni í gær. Halldór Karlsson fyrrum lærisveinn Einars Árna hefur greinilega kennt Horsensmönnum sitthvað sem hann hefur lært um dagana og þ.á.m. kerfið Haukar sem svínvirkaði í sigurleik Horsens BC á ASB sport um helgina, 65-55.
Halldór skoraði 17 stig í leiknum og spilaði grimma vörn. Horsens BC hefur þá unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni.Grétar Guðmundsson og félagar í Brønshøj sigruðu Køge á útivelli í dönsku 2. deildinni, 93-76 eftir að hafa leitt í hálfleik 43-42. Grétar átti ljómandi leik og skoraði 21 stig og gaf 12 stoðsendingar. Brønshøj hefur þá unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni.
Glostrup sem Kevin Grandberg þjálfar og leikur með vann sinn þriðja sigur í dönsku 2. deildinni þegar liðið sigraði BMS á útivelli 61-52.
Einir Guðlaugsson fékk það erfiða hlutverk að leika stöðu framherja þegar lið hans Herlev heimsótti Roskilde í dönsku 1. deildinni. Einir sem er frekar þekktur fyrir að leika í stöðu leikstjórnanda eða skotbakvarðar mátti sín lítils gegn fyrrum landsliðsmanni Dana undir körfunni eins og Ndjadi Kingombe. Hlutskipti Einis kom til vegna þess að stóru leikmenn Herlev gátu ekki verið með um helgina. Það var þó ekki bara Einir sem átti í erfiðleikum með Roskilde, heldur allt Herlev liðið og Roskilde sigraði 81-69. Þetta var fyrsti tapleikur Herlev í haust.
Coopsette Rimini sem Darrell Lewis leikur með vann fyrsta leik sinn í ítölsku A2 deildinni þegar liðið tók á móti Prima Veroli og sigraði 86-77. Rimini leiddi örugglega allan leikinn og skoraði Darrell 12 stig.
Mirco Virijevic og félagar í Bayern Munchen tóku á móti Dresden Titans í þýsku 1. Regionalligan um helgina og sigruðu örugglega 100-73. Mirko var stigahæstur með 26 stig.
Mynd: www.vf.is