spot_img
HomeFréttirIngi Þór: Vona innilega að öll félögin fylgi á eftir

Ingi Þór: Vona innilega að öll félögin fylgi á eftir

14:47 

{mosimage}

 

(Ingi Þór er nær okkur á myndinni en fjær er Böðvar formaður KKD KR. Félagarnir lentu í tæknilegum örðugleikum í Grindavík svo ekkert varð af beinni útsendingu frá Grindavík-KR. Gengur bara betur næst!)

 

Nú eru körfuknattleiksliðin orðin þrjú talsins sem hafa lagt sig fram við að koma á laggirnar Vef TV á heimasíðu félagsins og sýna beint á veraldarvefnum frá leikjum sinna liða. Stórglæsileg þjónusta við körfuknattleiksunnendur sem með tímanum á einvörðungu eftir að batna. Breiðablik er óhætt að kalla faðir körfuboltaútsendinganna á netinu en nýjasta félagið sem bætt hefur þessari rós í hnappagat sitt er KR. Þar er Ingi Þór Steinþórsson sjónvarpsstjóri og svo miklu meira en það. Ingi ber á herðum sér öfluga síðu KR-inga, www.kr.is/karfa

Við á Karfan.is sendum Inga nokkrar laufléttar en við vildum endilega fræðast um hvernig hægt væri að koma sér upp Vef TV og kappinn var ekki lengi að svara.  

 

KR TV. Var það augljósasta framfaraskrefið sem öflug kr.is síðan gat tekið? 

Ég held að við getum sagt það, Böðvar formaður, ég og fleiri í stjórninni hafa gengið með þessa hugmynd í maganum í nokkurn tíma. Mér fannst rétt að slá til í KRTV þar sem ég var hvort eðer að skrifa textalýsingu af öllum leikjum og vinnan er í raun minni við að tala en skrifa. KRTV er raunveruleiki þar sem við Ingimar höfum komið því upp í sameiningu með Böðvari formanni, við erum fámennir en öflugir. Við ætlum að reyna að sýna sem flesta leiki í vetur en það tekst ef félögin vinna saman í þessu með okkur líkt og Grindvíkingar reyndu af bestu getu. 

Sérðu þetta starf eflast og verða að veruleika hjá flestum félögunum í úrvalsdeild í náinni framtíð? 

Ég vona innilega að öll félög fylgi á eftir, því ég sé þetta eflast og er það ætlun okkar að klippa til og gera svona highlights frá leikjum svo að við slettum aðeins, en það þarf að virkja fleiri til að það geti orðið að veruleika. Við höfum notið góðrar aðstoðar Snorra Jóns við myndböndin á síðunni en það er hugur í okkur að gera betur í þessu. 

Hveru mikið verk er að halda úti svona útsendingum og hvar geta félögin og forráðamenn aflað sér upplýsinga og kunnáttu við svona útsendingar? 

Þetta var mikill undirbúningur hjá okkur en í raun og veru var þetta ekkert stórkostlegt mál þegar á endann var komið. Við fengum mikla og góða hjálp frá honum Einari hjá KFÍ og fær hann enn og aftur miklar þakkir frá okkur. En ég tel að félögin geti alveg tekið þetta upp hjá sér. Til að KRTV rúlli þurfum við að hafa myndavél, góða tölvu, forritið Eancoder, ADSL og opið port á roudernum. Þau félög sem hafa áhuga á að taka slaginn geta alveg talað við okkur og ég veit að Einar hjá KFÍ myndi ekki segja nei við félög ef leitað yrði til hans. Við erum með þjónustu okkar hjá Símanum og hefurJóhannes Laxdal þar reynst okkur vel við tæknimálin. Kostnaðurinn er svona í kringum hálfa milljón í þessu hjá okkur til að koma KRTV af stað. 

Útsendingin tókst vel til í DHL-Höllinnni í 1. umferð en hún brást í Grindavík í 2. umferð. Hvað þarf tæknilega að vera til staðar svo svona útsending gangi snuðrulaust fyrir sig? 

Það þarf að stilla saman IP addressur á tölvunni og einnig á roudernum. Síðan þarf að forward portinu ( ekki allir sem skilja þetta, en einhverjir) og það var einmitt það sem klikkaði í Grindavík. Við komust síðan að því eftir leikinn að einn heimamaður sagðist auðveldlega geta gert það fyrir okkur, en það var svekkjandi að geta ekki sýnt frá þessum skemmtilega leik. 

Nú ert þú aðallega í umgjarðarvinnunni hjá KR ásamt þjálfun. Kitlar það aldrei að fara aftur að þjálfa í efstu deildunum? 

Ég hef séð um að manna mína stráka(drengjaflokkinn) í umgjarðarvinnunni hjá KR og hef hellt mér í þetta með þeim af metnaði með góðum mönnum eins og Ingimar Victors, Páli Sævari, Ágústi Kára og heimaleikjaráðinu í heild. Það hefur verið skemmtilegt og er heimasíða KR á mínum herðum þannig að þetta einhvern veginn er orðið mitt þrátt fyrir að það átti aldrei að verða það. Ég er yfirþjálfari yngriflokka KR körfu og hef mikinn metnað fyrir því. Ég er að þjálfa unglinga- og drengjaflokk í félaginu og gengur okkur vel.  Ég hef metnað sem þjálfari og þjálfa yngri landsliðin hjá KKÍ en auðvitaðkitlar mann að þjálfa aftur í úrvalsdeild. Ég hef hinsvegar ekki geta gert það vegna vinnu og þar við situr eins og er. Tíminn mun leiða í ljós hvað ég mun gera, það eru alltaf einhver lið sem hringja og athuga stöðuna en við sjáum hvað framtíðin ber í skauti sér. 

Hvernig líst þér á upphafið, þessar tvær umferðir? 

Mér líst stórvel á þær, mörg lið þrusugóð og þau eiga eftir að stela sigrum af hvort öðru.  Ekkert lið fer létt í gegnum veturinn og það er glæsilegt, spennandi og góður körfubolti er einmitt það sem allir vilja sjá. Ég vona að félögin haldi áfram að gera vel í kringum leikina og sýna jafn mikinn metnað innan sem utan vallar.

 

Fyrir áhugasama sem vilja kynna sér nánar Vef TV útsendingar í körfuboltanum er hægt að hafa samband við Inga Þór á póstfanginu [email protected] sem og frumkvöðlana, þá sem ruddu brautina í þessum efnu, kappana á Ísafirði. Þá er hægt að nálgast og sjá meira um Vef TV þeirra félaga á www.kfi.is

 

 [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -