spot_img
HomeFréttirVinna Hamar og Snæfell sína fyrstu leiki í kvöld?

Vinna Hamar og Snæfell sína fyrstu leiki í kvöld?

12:40

{mosimage}

 

(Hlynur Bæringsson í baráttunni gegn Njarðvík í fyrstu umferð) 

 

Fjórir leikir fara fram í Iceland Express deild karla í kvöld og hefjast þeir allir kl. 19:15. Hamar og Snæfell munu í kvöld freista þess að landa sínum fyrstu deildarsigrum en Hamar tekur á móti Fjölni og Snæfell mætir Íslandsmeisturum KR í DHL-Höllinni. Aðrir leikir kvöldsins eru Stjarnan-Grindavík og svo Keflavík-Þór Akureyri.

 

Einn mest spennandi leikur kvöldsins er vafalítið viðureign KR og Snæfells. Bæði lið máttu sætta sig við ósigur í 2. umferð og koma því grimm til leiks í kvöld. Jafnan er það svo að andstæðingarnir tvíeflast gegn ríkjandi meisturum en Snæfellingar hafa ekki verið að finna taktinn upp á síðkastið. Snæfell lá í Ljónagryfjunni í fyrstu umferð og töpuðu svo í Hólminum eftir framlengdan leik gegn Keflavík. KR-ingar unnu Fjölnismenn sannfærandi í fyrstu umferð en lágu svo í Röstinni í Grindavík í stórskemmtilegum leik. Síðustu viðureignir þessara liða hafa verið mikil skemmtun og skemmst að minnast þess þegar KR sló út Snæfell í undanúrslitum á síðustu leiktíð eftir magnaða oddarimmu. Þessir bardagara svíkja engan.

 

{mosimage}

 

Flestir gera örugglega ráð fyrir Grindavíkursigri í kvöld þegar þeir heimsækja nýliða Stjörnunnar í Ásgarð en Stjarnan vann góðan heimasigur á Skallagrím í fyrstu umferð en lutu síðan í lægra haldi gegn Fjölni í annarri umferð. Stjarnan á því enn eftir að vinna sinn fyrsta útileik í úrvalsdeild í sögu félagsins. Grindvíkingar ættu þó ekki að vera í vandræðum með Stjörnuna ef þeir leika jafn vel og þeir gerðu gegn KR í síðustu umferð. Þar riðu þeir Jonathan Griffin og Þorleifur Ólafsson baggamuninn á lokasprettinum. Steven Thomas þarf að gyrða í brók í Stjörnuliðinu ef ekki á illa að fara en hann var vart skugginn af sjálfum sér í leiknum gegn Fjölni. Spennandi leikur í Ásgarð og verður fróðlegt að sjá hvernig bæði lið koma til leiks eftir að hafa bæði átt tvo gjörólíka leiki í fyrstu tveimur umferðunum.

 

{mosimage}

 

Í Hveragerði mætast Hamar og Fjölnir en Hamarsmenn, rétt eins og Snæfell, hafa ekki enn innbyrt sigur í deildinni. Hamar hefur leikið tvo spennuleiki í upphafi leiktíðar og hafa verið óheppnir að ná ekki að klára þá. Hinn ungi og efnilegi Áskell Jónsson afgreiddi Hamar á lokasekúndunum í Borgarnesi svo óhætt er að gera ráð fyrir grimmum Hamarsmönnum á heimavelli í kvöld. Fjölnismenn lágu nokkuð stórt gegn KR í fyrstu umferð en nældu sér svo í tvö stig gegn Stjörnunni. Baráttuleikur í Hveragerði í kvöld, ekki spurning.

 

{mosimage}

 

Þór Akureyri fer vafalítið sem ,,underdog” í leikinn gegn Keflavík í Sláturhúsinu í kvöld. Reyndar er það svo að það mætir enginn sigurstranglegur í Sláturhúsið og sér í lagi ekki þegar Keflvíkingar eru á góðu róli. Tveir sigrar í röð og með sigri í kvöld geta Keflvíkingar tyllt sér á toppinn þar sem erkifjendur þeirra í næsta nágrenni, Njarðvík, eiga ekki leik fyrr en annað kvöld. Þór er enn nokkuð óskrifað blað í deildinni. Lögðu ÍR í fyrstu umferð en töpuðu stórt gegn Njarðvík í þeirri annarri þar sem Njarðvíkingar hnykkluðu vöðvana í síðari hálfleik og þurftu ekki lengri tíma en tvo leikhluta til þess að gera út um leikinn.

 

Það verður því hart barist á öllum vígstöðvum í kvöld og fólk hvatt til að fjölmenna. Allir leikirnir hefjast kl. 19:15.

 

{mosimage}

 

[email protected]

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -