spot_img
HomeFréttirJóhannes: Erum að planta haustlaukunum

Jóhannes: Erum að planta haustlaukunum

16:53

{mosimage}

(Jóhannes)

 

Nýliðar KR höfðu sinn fyrsta sigur í Iceland Express deild kvenna í gær er KR lagði Hamar nokkuð örugglega í DHL-Höllinni. Karfan.is náði tali af Jóhannesi Árnasyni þjálfara KR sem segir það markmið liðsins að komast í úrslitakeppnina. Verið sé að planta haustlaukunum og vonast er eftir blómlegri uppskeru í vor.

 

Fyrsti sigurinn í höfn, er það ekki mikill léttir fyrir þjálfarann? 

Ég get nú ekki sagt að það sé mikill léttir þar sem það eru 20 leikir eftir af keppnistímabilinu en vissulega gaman að vinna fyrsta leikinn. Hamar undir stjórn Ara er erfitt viðureignar og fyrir leikinn var ég alls ekki viss á hverju ég átti von. Við vorum yfir allan leikinn en náðum ekki að stinga þær af fyrr en 4 mínútum fyrir leikslok og fyrir það eiga Hamarsstúlkur hrós skilið, þær voru inni í leiknum nær allan tímann.  

Monique lék sinn fyrsta leik í gær, gegn Hamri og skilaði frábærum tölum. Mun KR treysta mikið á hana í vetur og hvernig leikmaður er hún? 

Monique er frábær leikmaður og fellur vel inn í okkar leik. Með leikmann eins og Hildi Sigurðardóttur, sem finnur allar mögulegar sendingalínur á samherja sína, á Monique eftir að skora mikið og fá margar auðveldar körfur. Þetta er leikmaður sem hefur hægt um sig en endar leiki með 15 fráköst og 30 stig, svipuð og Darrell Flake – hún lætur hlutina líta út fyrir að vera einfalda og auðvelda. Klassískt einkenni góðra leikmanna. 

Er raunhæft fyrir KR að stefna á úrslitakeppnina? 

Jah, það er a.m.k. markmið okkar í KR. Hópurinn er að spila sitt fyrsta leiktímabil saman og það er nú þannig með nýliða að þeir fá aldrei neitt gefins. Þess vegna verður þetta mikil vinna og að mörgu að huga en þetta byrjar ágætlega hjá okkur og vonandi eigum við slatta inni ennþá. Við erum að planta haustlaukunum núna og vonandi verður blómleg uppskera í vor. 

Næsti leikur er nýliðaslagur gegn Fjölni. Hvernig leggst hann í KR-inga? 

Það er alltaf gaman að mæta Fjölni og þess vegna leggst leikurinn vel í mig. Við áttum miklar rimmur í fyrra og Nemanja er góður þjálfari. Þær pressa mikið og ég á von á því að þær geri það gegn okkur. Það er því okkar að undirbúa okkur fyrir það og finna síðan upp á einhverju leynitrixi sem slær þær út af laginu.

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -