12:00
{mosimage}
(Samir átti stórleik í gær með 29 stig og 12 stoðsendingar)
Karla- og kvennalið Tindastóls léku í gærkvöldi tvo leiki við lið Skallagríms frá Borgarnesi. Leikirnir báru upp á 100 ára afmælisdag Tindastóls og var frítt á leikina í tilefni þess í boði Steinullar hf og Sparisjóðs Skagafjarðar. Frá þessu er greint á www.tindastoll.is
Strákarnir riðu á vaðið og öttu kappi við kynbræður sína kennda við landnámsmann þeirra Borgfirðinga. Leikurinn var hraður og jafn í upphafi og staðan 26-24 eftir fyrsta leikhluta. Spennan hélst í öðrum leikhluta og sáust glæsileg tilþrif, sérstaklega frá Tindastólsmönnum, en Donald Brown tróð tvívegis með slíkum tilþrifum að langt er síðan fólk hefur litið slíka dýrð í húsinu. Stólarnir náðu 7 stiga forskoti í stöðunni 42 -35, en Skallarnir skoruðu síðustu níu stigin fyrir hlé og staðan 42-44 þegar pásan kom.
Í hálfleik var einn heppinn áhorfandi dreginn út og fékk hann farmiða til eins af áfangastöðum Iceland Express í Evrópu.
Fjörið hélt áfram í síðari hálfleik og héldu gestirnar áfram sem frá var horfið fyrir hlé og settu tíu stig á móti 2 á fyrstu þremur mínútum síðari hálfleiks. Búnir að skora nítján stig í röð gegn aðeins tveimur frá heimamönnum og varð vart við vonleysi í Síkinu á Króknum. Staðan 44 – 54 og stefndi í óefni. Þá girtu heimadrengir sig í brók og með harðfylgi náðu þeir að saxa muninn niður og komast einu stigi yfir með vítaskoti frá Samir í lok þriðja leikhluta. Skorið orðið 68 – 67 og allt útlit fyrir spennandi lokamínútur.
Heldur var lítið skorað í síðasta fjórðungnum, en baráttan þeim mun meiri. Aðeins sex stigi litu dagsins ljós fyrstu fimm mínútur leikhlutans, Skallarnir skoruðu fimm þeirra og staðan 69 – 72 . Donald jafnaði leikinn með þriggja stiga körfu og Serge kom Stólunum yfir 74 – 72. Flake svaraði með tveimur stigum og Axel setti niður annað vítið af tveimur og rúmar tvær mínútur eftir. Þá kom þriggja stiga karfa frá Hafþóri fyrir Skallagrím og þeir komnir með fjögurra stiga forskot. Samir skoraði tveggja stiga og Marcin setti tvö víti niður af öryggi og aftur jafnt. Hafþór setti svo aðra þriggja stiga körfu niður fyrir Skallana og útlitið orðið dökkt fyrir heimamenn og tæp mínúta eftir. Marcin svaraði þá bara fyrir Stólana þegar stutt var eftir og gestirnir fengu svo einn sjéns í lokin, en tíminn var of naumur og framlenging staðreynd eftir að staðan var 81 – 81 að loknum venjulegum leiktíma.
Stólarnir hófu framlenginguna betur og komust í 88 – 83. Þrátt fyrir að Skallagrímur minnkaði muninn í 88 – 86 þá var það ekki nóg og heimamenn sýndu töluvert meira öryggi á meðan gestirnir misstu boltann klaufalega frá sér í tví eða þrígang. Samir kláraði leikinn með þriggja stiga körfu sem kom Stólunum í 93 – 86 og svo fylgdu tvö önnur stig frá kappanum í kjölfarið. Skallarnir reyndu að brjóta á heimamönnum og senda þá á vítalínuna og þótt Stólarnir klikkuðu á fjórum af síðustu sex vítaskotum sínum í leiknum þá hjálpaði það ekki Skallagrímsmönnum þar sem þeir klúðruðu sínum sóknum.
Leikurinn fjaraði svo út síðustu hálfa mínútuna, en lokaskotið og síðustu stig leiksins átti Samir Shaptahovic þegar hann setti niður flautukörfu fyrir þremur stigum og kórónaði þar með stórleik sinn í kvöld. Mikil gleði braust út að leik loknum, enda ekki á hverjum degi sem menn vinna svona sætan og skemmtilegan sigur á 100 ára afmælisdeginum. Stigahæstir Tindastóls voru þeir Donald og Samir með 29 stig hvor. Stigahæstir Skallagríms var Darrell Flake með 25 og Zeko með 24 stig.
Að loknum karlaleiknum hófst kvennaleikur sömu liða. Skallagrímsstelpurnar höfðu frumkvæðið lengst af í leiknum og um miðjan síðasta leikhluta leit út fyrir nokkuð öruggan sigur þeirra, en þá tóku Tindastólsdömurnar kipp og minnkuðu muninn niður í aðeins eitt stig 59 – 60. Skallagrímur átti hinsvegar síðustu körfu kvöldsins í húsinu og unnu því með þremur stigum 59 – 62. Lang stigahæst Tindastóls var Sigríður Inga Viggósdóttir með 32 stig, en næst kom Dagbjört með 7 stig.
Frétt tekin af www.tindastoll.is
Mynd: [email protected]