spot_img
HomeFréttirSvavar: Við áttum framlenginuna

Svavar: Við áttum framlenginuna

15:10 

{mosimage}

 

 

(Svavar í leik gegn Grindavík á síðustu leiktíð) 

 

Svavar Atli Birgisson varð að fylgjast með af tréverkinu í gærkvöldið þegar Stólarnir lögðu Skallagrím 102-90 í framlengdum spennuleik á Sauðárkróki í gærkvöldi. Svavar snéri sig á ökkla snemma í fjórða leikhluta en hann sagði í samtali við Karfan.is að hann hefði aldrei verið í vafa um hvoru megin sigurinn myndi lenda, takturinn hefði verið kominn í Stólanna á lokasprettinum.

 

Er það alltaf svoleiðis Svavar að það lið sem skorar fyrstu stig framlengingarinnar fer með sigur af hólmi? ,,Ég er ekki viss hvort það sé alltaf svoleiðis en við áttum þessa framlengingu, þetta var bara einstefna og í upphafi 4. leikhluta fannst mér þetta vera að koma hjá okkur og ég var aldrei í vafa um að við myndum vinna,” sagði Svavar sem gerði 10 stig í leiknum.

 

Á milli 400-500 manns lögðu leið sína á leik liðanna í gærkvöldi og sagði Svavar stemmninguna hafa verið frábæra. ,,Það er langt síðan það var svona mikil stemmning í húsinu. Vonandi er þetta það sem koma skal og ég var mjög ánægður með mætinguna. Fólk hafði einnig orð á því eftir leik hversu skemmtilegt þetta hefði verið,” sagði Svavar sem ætlaði eftir fremsta megni að reyna að vera með gegn Fjölni á morgun.

 

,,Ég er svolítið bólginn í ökklanum og á erfitt með að labba og á örugglega ekki eftir að geta verið með að neinu viti gegn Fjölni,” sagði Svavar sem gæti reynst Stólunum dýrt þar sem þeir léku aðeins á sjö leikmönnum í gær. ,,Við erum vissulega brothættir gegn því að missa menn í meiðsli en á meðan þetta gegnur svona hjá okkur þá kvartar maður ekki,” sagði Svavar sem hefur ágæta tilfinningu fyrir leik morgundagsins.

 

,,Fjölnismenn eru erfiðir heim að sækja og mér finnst eins og allir geti unnið alla í deildinni þetta árið. Ég hugsa að KR, Njarðvík og jafnvel Keflavík verði þarna á toppnum því þessi lið eru skrefinu á undan öðrum. Annars munu hin liðin í deildinni éta stig af hvoru öðru,” sagði Svavar.

 

Óhætt er að segja að Tindastóll hafi komið á óvart það sem af er leiktíðinni en þeir eru fáliðaðir en hafa engu að síður unni tvo leiki og tapað einum í fyrstu þremur umferðunum. Eins og kom fram í máli Svavar þá kvartar hann ekki undan því að vera í brothættu eða fámennu liði á meðan hlutirnir ganga upp eins og þeir gerðu í gær.

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -