16:24
{mosimage}
(Bryant ekki hátt skrifaður hjá Jackson þessa dagana)
Kobe Bryant æfði ekki með LA Lakers í gær sökum tognunar í úlnlið og fyrir vikið var þjálfari Lakers, Phil Jackson, nokkuð harðorður í sínu máli um Kobe. Jackson kvaðst búast við því að Kobe yrði þó með í fyrsta leik Lakers á þriðjudag þegar liðið mætir Houston Rockets í fyrstu umferð NBA deildarinnar.
,,Það er augljóst að hann hefur ekki kastað hjarta og sál inn á körfuboltavöllinn að undanförnu. Það finnst mér pínulítið særandi því hann ætlaði sér að vera á kafi í þessu en það er augljóst að hann á erfitt með það núna,” sagði Jackson við fjölmiðla í gær.
Bryant var sjálfur fljótur til svara í fjölmiðlum: ,,Jackson ætti að hafa sem minnstar áhyggjur af þessu eða bara hver sem er. Ég er reiðubúinn til þess að spila, þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af mér,” sagði Bryant.
Samkvæmt fréttamiðlinum ESPN í Bandaríkjunum hafa Lakers og Chicago Bulls átt í viðræðum nánast daglega í nokkurn tíma um að skipta Kobe til Bulls. Samkvæmt frétt ESPN hafa Lakers þá beðið um Luol Deng, Ben Gordon, Joakim Noah og Tyrus Thomas í skiptunum. Vandinn mun hins vegar vera sá að Bryant þykir ekki líklegur að ganga til Bulls ef þeir myndu láta frá sér í skiptunum jafn sterka leikmenn.
Hvað sem verður þá bendir allt til þess að Bryant verði áfram í herbúðum Lakers en það verður að koma í ljós síðar. Hitt er þó víst að það andar nokkuð köldu á millum hans og Phil Jackson.
Mynd: AP