12:04
{mosimage}
Keflavíkurstúlkur eru enn efstar og ósigraðar í Iceland Express-deild kvenna í körfuknattleik eftir rafmagnaðan sigur á KR í Íþróttahúsinu við Sunnubraut í kvöld, 69-66. Fyrir leikinn urðu Keflvíkingar fyrir miklu áfalli þar sem kom í ljós að framherjinn Bryndís Guðmundsdóttir sleit krossbönd í hné og verður sennilega frá keppni allt tímabilið. Það er mikil blóðtaka, jafnvel fyrir svo sterkt lið sem Keflavík hefur á að skipa. Fyrsti leikhluti gaf tóninn um það hvernig þessi leikur myndi spilast, en sóknarleikur beggja liða var handahófskenndur og mikið bar á mistökum, en baráttan var í algleymi. Keflvíkingar voru sérstaklega lengi í gang, en Margrét Kara Sturludóttir dró vagninn fyrir þær með góðum körfum þegar þörf var á kemur þetta fram á www.vf.is.
KR hafði forskot, 18-22, eftir fyrsta leikhluta, en í öðrum leikhluta snerist taflið við og Keflavík seig framúr og leiddi í hálfleik, 44-36.
Í upphafi seinni hálfleiks urðu svo enn kaflaskil þar sem KR komu sterkar inn að nýju undir forystu Hildar Sigurðardóttur og Monique Martin sem fóru mikinn, þrátt fyrir að skotnýting þeirra hafi verið afleit eins og hjá öllum sem tóku þátt í þessum leik í kvöld. Margrét Kara gat lítt beitt sér í þessum leikhluta sökum villuvandræða, en Marín Rós Karlsdóttir, sem átti annars ágætan leik, fékk sína fimmtu villu áður en lokafjórðungurinn hófst. Staðan var 54-53 og leikurinn galopinn.
Heimastúlkur höfðu frumkvæðið framan af leikhlutanum, en þegar 5 mín voru eftir komust KR-ingar yfir með þriggja stiga körfu Sigrúnar Ámundadóttur, 59-60. Margrét Kara svaraði að bragði með tveimur vítum og kom sínu liði yfir að nýju, en henni varð ekki mikið meira úr verki þann leikinn því hún var send á bakkinn með fimm villur þegar 4 mín voru eftir.
{mosimage}
Skömmu síðar fór stalla hennar, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir, einnig af velli, búin að fylla villukvótann, og Kesha Watson, sem var ekki að finna sig eins vel á parketinu og í síðustu leikjum, haltraði sökum hnémeiðsla sem hún hlaut í þriðja leikhluta. útlitið ekki gott og KR náði forystunni, 65-66 þegar rúm mínúta var eftir.
Watson var hins vegar ekki búin að leggja árar í bát og gerði síðustu fjögur stig leiksins úr stökkskoti og tveimur vítum sem KR áttu ekkert svar við, enda var Hildur líka farin af velli með fimm villur. Eftir æsispennandi lokasekúndur unnu Keflvíkingar boltann úr höndum gestanna og héldu honum þar til flautan gall.
Keflvíkingar geta svo sannarlega prísað sig sælar yfir að hafa hirt stigin tvö, en það sem tryggði sigurinn var ódrepandi barátta og sigurvilji, enda veitir ekki af þegar skotnýting utan af velli er um 25% og besti frákastari liðsins frá út veturinn. stigaskor Keflavíkur, 69 stig er einnig það lægsta sem sést hefur á þessum bænum ansi lengi. Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari stúlknanna, var enda afar sáttur við að hafa náð að kreista fram sigur.
„Þetta var rosalega erfið fæðing,“ sagði hann við VF í leikslok. „Spennustig liðsins var mjög hátt fyrir leikinn og þar er kannski að hluta til mér að kenna því ég lagði mikla áherslu á að einhver þyrfti að fylla skarð Bryndísar. Þannig vorum við svolítið yfirspennt, en það sem einkennir hins vegar góð lið er að þau eru kannski að spila illa en vinna samt. KR hægðu mikið á leiknum, en við höfum mikla og góða liðsheild og baráttuanda sem skiluðu okkur þessum sigri. Við þurftum virkilega á sigri að halda í kvöld, m.a. til að sýna fram á að enginn sé ómissandi og það komi alltaf maður í manns stað.“
myndir og umfjöllun www.vf.is