16:41
{mosimage}
(Yngvi Páll Gunnlaugsson)
Íslandsmeistarar Hauka höfðu magnaðan 88-90 sigur á Grindavík í framlengdum spennuleik í Iceland Express deild kvenna í gærkvöldi. Þjálfari Hauka, Yngvi Páll Gunnlaugsson, var að vonum kátur með þennan sigur og sér í lagi framlag fyrirliðans sem brást ekki á ögurstundu.
,,Þetta var hörkuleikur og dómararnir áttu fullt í fangi með hann. Svona leikir taka á taugarnar en það er þetta sem gerir körfuboltann svo skemmtilegan. Spenna fram á síðustu sekúndu,” sagði Yngvi í samtali við Karfan.is eftir leikinn í Röstinni í gærkvöldi.
,,Ég segi að maður þurfi heppni til að vinna svona leiki en maður þarf líka að standa í lappirnar og halda þetta út. Við gerðum það. Skiba átti frábæran leik og við áttum í vandræðum með að stoppa hana framan af. Kristrún náði þó að hemja hana aðeins og tók af skarið fyrir okkur eins og sannur fyrirliði,” sagði Yngvi og kvaðst rosalega ánægður með sína leikmenn.
,,Það er út af þessu sem maður er í þessu, það eru þessir stóru leikir því það er ógeðslega gaman þegar maður vinnur svona leiki,” sagði Yngvi sem er nú í toppsæti deildarinnar með Hauka sem deila sætinu með Keflavík sem á leik til góða.