spot_img
HomeFréttirLeikir kvöldsins: Stórleikur í Keflavík

Leikir kvöldsins: Stórleikur í Keflavík

14:27

{mosimage}

 

(Tommy Johnson Keflvíkingur í baráttunni gegn Jonathan Griffin í 1. umferðinni) 

 

Sjöttu umferð Iceland Express deildar karla lýkur í kvöld með tveimur leikjum og er stórleikur kvöldsins vafalítið viðureign Keflavíkur og KR í Sláturhúsinu. Þá mun Ágúst Björgvinsson stýra Hamri í sínum fyrsta leik með liðið gegn Þór Akureyri í Síðuskóla.

 

Von er á fjölmenni í Sláturhúsið í kvöld þar sem tvö af sterkustu liðum landsins leiða saman hesta sína. KR og Keflavík munu ekki aðeins berjast af krafti á parketinu heldur verður mikið um að vera í stúkunni þar sem bæði lið hafa á að skipa stórgóðum stuðningsmannasveitum. Á vefsíðu KR kemur fram að Miðjan söngelska muni mæta og þá mun Trommusveit Keflavíkur ekki láta sig vanta og munu sveitirnar líkast til tralla og syngja sig hásar.

 

Með sigri í kvöld geta Íslandsmeistarar KR jafnað Keflavík og Grindavík að stigum á toppi deildarinnar en Grindvíkingar komust á toppinn í gær með sigri á Skallagrím en KR og Keflavík eiga leik kvöldsins til góða á Grindavík. Ef Keflavík hefur sigur í kvöld eru þeir að nýju orðnir einir á toppi deildarinnar. Það ætti enginn körfuknattleiksunnandi að láta sig vanta á þessa stórrimmu.

 

{mosimage}

(Helgi Már gerði svakalega flautukörfu gegn Njarðvík á dögunum)

 

Á Akureyri munu Hamarsmenn ýta úr vör nýju upphafi með Ágúst Björgvinsson í brúnni. Hamar tapaði naumlega gegn Snæfell í síðustu umferð og snemma í þessari viku sagði Pétur Ingvarsson upp störfum hjá félaginu. Bæði Hamar og Þór eru á botni deildarinnar með 2 stig og það lið sem hefur sigur í kvöld getur híft sig upp af botninum og rétt sinn hlut um hríð. Þórsarar töpuðu naumlega nýliðaslagnum gegn Stjörnunni í Garðabæ í síðustu umferð þar sem Cedric Isom fór mikinn að vanda í liði Þórs. Hann mun væntanlega reynast Hamri erfiður ljár í þúfu í kvöld.

 

Í 1. deild karla munu Haukar fá botnlið Þróttar í Vogum í heimsókn og Þór Þorlákshöfn tekur á móti Reyni frá Sandgerði. Breiðablik getur svo jafnað FSu á toppi deildarinnar ef þeim tekst að landa sigri gegn KFÍ fyrir Vestan í kvöld. Allir leikirnir í 1. deild karla hefjast kl. 20:00 í kvöld.

 

Þá verða einnig þrír leikir í 1. deild kvenna og hefjast þeir allir kl. 19:15. Tindastóll fær Njarðvík í heimsókn, Þór Akureyri heimsækir Skallagrím í Borgarnes og Breiðablik tekur á móti Snæfell.

 

Fjölmennum á vellina í kvöld!!!

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -