16:15
{mosimage}
Undirritaður ritaði opið bréf til yfirmanns íþróttadeildar Morgunblaðsins fyrir nokkru, hann hefur engu svarað enn og því skrifaði ég nýtt bréf sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Mánudaginn 29. október sendi undirritaður tölvupóst á Sigmund Ó. Steinarsson yfirmann íþróttadeildar Morgunblaðsins. Ástæðan var skortur á umfjöllun um stórleik Njarðvíkur og Keflavíkur í Iceland Express deild karla sem fram fór daginn áður. Greinilegt var að Morgunblaðið hafði ekki sent mann á leikinn og einungis skrifaðar 14 línur um leikinn í blaðinu. Einnig var ekki minnst orði á leik Fjölnis og Tindastóls sem fram fór í sömu deild þann sama dag.
Tölvupóstinn skrifaði ég eftir að hafa heyrt í mörgum óánægðum körfuknattleiksunnendum sem hefur þótt Morgunblaðið sniðganga körfubolta oft á tíðum. Í tölvupóstinum spurði ég hann hvers vegna ekki hafi verið sendur maður á stórleik sem Njarðvík – Keflavík er og einnig hvort það væri stefna blaðsins að sniðganga körfubolta.
Viku seinna hafði mér ekki borist svar og ritaði ég því opið bréf sem birt var á vef okkar, karfan.is. Einnig sendi ég blaðið sem lesendabréf í Morgunblaðið með von um birtingu á næstu dögum. Sömu vinnubrögð viðhafði ég í sumar þegar ég skoraði á Skjáinn að sýna körfubolta í stað enska boltans sem þeir misstu. Bréfið á karfan.is fékk vægast sagt góðar viðtökur og yfir 3000 manns lásu bréfið og í dag eru um 4000 búnir að lesa auk þess sem bréfið birtist á öðrum vefjum í heild sinni. Í bréfinu skoraði ég jafnframt á fólk að senda Sigmundi tölvupóst og hvetja hann til að svara mér.
Daginn eftir fékk ég bréf frá Morgunblaðinu þar sem birtingu var hafnað þar sem það hafði birst opinberlega annarsstaðar, á karfan.is. Gott og vel, þeir hafa sínar reglur en ég fór sömu leið og í júní og þá var bréf mitt birt. Kannski ekki eins áberandi málefni.
Ég ritaði því Karli Blöndal ritstjóra blaðsins bréf og sagði honum að Sigmundur hefði ekki svarað mér, Karl svaraði skömmu síðar og sagði hnippa í Sigmund.
Sunnudag fyrir rúmri viku, 14 dögum eftir að ég sendi upphaflegan tölvupóst hafði mér ekki enn borist svar. Ég skrifaði því Karli og Sigmundi tölvupóst og bað um svar. Það hefur ekki borist enn.
Yfirmaður íþróttadeildar Morgunblaðsins velur greinilega að þegja málið í hel, það eru hans vinnubrögð. Ég hef því miður ekki meiri tíma og krafta að sinni til að krefja hann svara og læt þessu máli hér með lokið. Vil þó taka það fram að mér hefur þótt blaðið sinna körfubolta vel síðastliðnar tvær vikur.
Með körfuboltakveðju
Rúnar Birgir Gíslason
Fréttastjóri karfan.is