spot_img
HomeFréttirEkki sami neisti og var áður

Ekki sami neisti og var áður

12:45

{mosimage}

Slæmt gengi Snæfells í Iceland Express-deild karla það sem af er vetri hefur vakið mikla athygli. Liðið er í sjötta sæti deildarinnar eftir átta leiki og hefur aðeins unnið þrjá leiki en tapað fimm. Nú síðast tapaði liðið óvænt heima gegn Fjölni og það sem meira er þá náði Snæfell ekki einu sinni að skora 60 stig í leiknum. Þjálfari liðsins, Geof Kotila, er eðlilega áhyggjufullur yfir þessu dapra gengi.

„Tapið gegn Fjölni kom okkur sjálfum ekki síst á óvart og það dylst engum að við erum í niðursveiflu þessa dagana," sagði Kotila en hann vildi meina að slæmt tap gegn Skallagrími síðasta föstudag hefði setið í mönnum en þar missti Snæfell niður sextán stiga forystu.

„Leikurinn sat greinilega í mönnum enda hrikalega slæmt tap. Okkur gengur þess utan illa að skora stig. Það hjálpar ekki að Sigurður Þorvaldsson er búinn að vera veikur og var ekki nema skugginn af sjálfum sér gegn Fjölni."

Snæfelli var spáð öðru sæti deildarinnar fyrir tímabilið en liðið er langt frá því að vera í sama klassa og bestu liðin eins og staðan er í da. Kotila er löngu hættur að hugsa um toppbaráttuna enda þarf hann að hugsa um erfiðari og alvarlegri mál miðað við stöðu liðsins.

„Ég tel að fyrst og fremst þurfi viðhorf manna að breytast. Á meðan það gerist ekki þá verðum við í vandræðum. Það verður ekki auðvelt að snúa þessu gengi við enda leggst gengið eðlilega á sálina á mönnum. Nú snúast hlutirnir ekki um toppbaráttuna hjá okkur heldur að halda lífi hreinlega," sagði Kotila en lítil breidd hefur klárlega ekki hjálpað liðinu mikið. Það eru því gleðitíðindi að Magni Hafsteinsson sé byrjaður að spila aftur með liðinu en hann á eftir að komast í form enda nýfarinn af stað aftur.

„Gengið er vissulega mikil vonbrigði en það sem veldur mér mestum vonbrigðum er að leikmenn eru hreinlega ekki að berjast nógu grimmilega. Það er ekki sami neisti og baráttuandi hjá okkur nú og áður. Það vantaði alla grimmd og baráttu í menn gegn Fjölni og við gerum ekki mikið fyrr en við lögum þá hlið mála. Það er blessunarlega mikið eftir af mótinu og ég hef enn fulla trú á að við getum unnið okkur út úr vandamálunum og komið sterkir inn í seinni hluta mótsins."

www.visir.is 

Mynd: www.aaifbasket.dk

 

Fréttir
- Auglýsing -