14:35
{mosimage}
(Molly Peterman sækir að TaKeshu Watson í leiknum í gær)
Bandaríski bakvörðurinn Molly Peterman fór á kostum í sigri Valskvenna gegn Keflavík í gærkvöldi og skoraði margar mikilvægar körfur. Molly er jafnan burðarásinn í sóknarleik Vals og hefur gert 28,3 stig að meðaltali í leik fyrir Val í þeim 7 deildarleikjum sem hún hefur leikið með félaginu. Peterman var hæstánægð með sigurinn í gær og sagði í samtali við Karfan.is að vonandi tækist Valsliðinu nú að nýta sigurinn til að búa til skriðþunga í leik liðsins.
,,Þetta var gríðarlega stór sigur fyrir okkur og eykur vafalítið sjálfstraustið hjá okkur. Við vissum að við gætum unnið Keflavík en í gærkvöldi sönnuðum við það. Þökk sé liðsfélögum mínum tókst mér að eiga góðan leik,” sagði Peterman sem gerði 38 stig í leiknum, stal 10 boltum og tók 5 fráköst.
,,Þetta var virkilega erfiður leikur sem fór í tvíframlengingu en við sýndum af okkur þrautsegju í baráttunni. Það hefði verið dapurlegt að tapa svona leik því við höfum margoft verið nálægt því að vinna svona leiki í vetur. Vonandi tekst okkur að nýta þennan sigur og búa til skriðþunga í okkar leik og ég tel að stór hluti af körfuknattleik sé að hafa trú á því að maður geti gert hlutina,” sagði Peterman sem gerði síðustu stig leiksins í gær af vítalínunni og breytti stöðunni í 97-94 sem þvingaði Keflavík til að taka erfitt þriggja stiga skot í næstu sókn sem svo geigaði.
,,Það er mín skylda að skora það kemur með stöðunni og ég geri mér grein fyrir mínu hlutiverki en liðsfélagar mínir eru frábærir. Það var mikill léttir að vinna Keflavík og nú get ég sofið vel næstu nætur.”