spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur Stjörnunnar(Umfjöllun)

Öruggur sigur Stjörnunnar(Umfjöllun)

22:45

{mosimage}

Í kvöld mættust Stjarnan og Fjölnir í Ásgarði, Garðabæ, í Iceland Express-deild karla. Leikurinn var gríðarmikilvægur fyrir bæði lið en fyrir leikinn var Fjölnir í neðsta sæti með 6 stig en Stjarnan í því níunda með tveim stigum meira. Í liði Stjörnunnar lék Jovan Zdravevsky sinn fyrsta leik eftir að hafa skipt úr KR.


Leikurinn var jafn í upphafi og liðin skiptust á að hafa forystu fyrstu 4 mínúturnar. Dimitar var heitur hjá Stjörnunni og hjá Fjölni drógu þeir Karlton Mims og Anthony Dreja vagninn.  Eftir stórglæsilega ,,follow-up” troðslu frá Calvin Roland sigu Stjörnumenn þó örlítið framúr og höfðu 5 stiga forskot í lok fjórðungsins, 27-22, en allt leit út fyrir að jafn leikur væri framundan. Annað átti þó eftir að koma á daginn.

 

Stjörnumenn byrjuðu 2. leikhluta gríðarsterkt. Fyrstu 14 stig leikhlutans voru þeirra og þeir voru fljótlega komnir með 19 stiga forskot. Fjölnismenn réðu ekkert við fríska Stjörnupilta og Dimitar Karadzovsky fór mikinn og var nálægt þrennunni strax í hálfleik. Einnig áttu Calvin Roland og Kjartan Kjartansson ágæta spretti í áhlaupinu en Fjölnismenn virtust heillum horfnir. Að lokum tók Bárður Eyþórsson, þjálfari Fjölnis, leikhlé og svo virtist sem það hefði borið tilskildan árangur því Fjölnismenn skoruðu fjögur næstu stig. Stjörnumenn voru hins vegar hvergi hættir og unnu fjórðunginn með 29 stigum gegn 7 stigum Fjölnis og staðan því 56-29 í hálfleik.

{mosimage}

 

Sama virtist ætla að verða upp á teningnum í þriðja leikhluta. Calvin Roland opnaði með troðslu og Jovan fylgdi eftir með þristi og eftir enga stund var forskot Stjörnunnar skyndilega orðið 32 stig. Fjölnismönnum bitu þá í skjaldarrendur og með góðum þriggja stiga skotum frá Kristni Jónassyni og fleirum tókst þeim að minnka forskotið í 17 stig, vörn Fjölnis virkaði mjög vel jafnt sem sókn en vörn Stjörnunnar var oft á tíðum hriplek. Stjarnan hafði þó 17 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn 78-61.

 

Fjórði leikhluti varð aldrei spennandi. Fjölnismenn gerðu það sem þeir gátu til að minnka forskotið en Stjörnumenn héldu fast í sigurinn. Það var því Stjarnan sem fór með sigur af hólmi, lokatölur 96-79.

 

Í liði Stjörnunnar fór Dimitar Karadzovsky hamförum, en hann var mjög nálægt þrennunni, 29 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Einnig lék Hafþór Örn Þórisson drengjaflokksmaður sinn fyrsta meistaraflokksleik.  Hjá Fjölni skoraði Karlton Mims 23 stig.

Tölfræði leiksins

Texti: Elías Karl Guðmundsson

Myndir: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -