spot_img
HomeFréttirTíundi deildarsigur Blika: Erum með skýr markmið segir Einar

Tíundi deildarsigur Blika: Erum með skýr markmið segir Einar

22:00
{mosimage}

(Einar og lærisveinar ræða málin gegn Hetti í Smáranum fyrr á þessari leiktíð) 

Breiðablik vann í kvöld sinn tíunda deildarsigur í röð í 1. deild karla þegar þeir skelltu gestum sínum í Reyni Sandgerði 96-70 í Smáranum í Kópavogi. Blikar eru því komnir með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar þar sem Þór Þorlákshöfn lagði FSu á Selfossi. 

Staðan í hálfleik var 49-39 Blikum í vil sem voru mun sterkari aðilinn í síðari hálfleik. William Coley lék í kvöld sinn fyrsta leik með Breiðablik og á heimasíðu félagsins segir að Bandaríkjamaðurinn hafi komist vel frá sínu í leiknum. 

,,Við gerðum kröfu á okkur sjálfa að vinna leikinn í kvöld og nú fáum við sex hörkuleiki í röð og byrjum á Haukum næsta föstudag. Við þurfum bara að einbeita okkur að okkar eigin leik,” sagði Einar í samtali við Karfan.is.  

FSu tapaði nokkuð óvænt í kvöld gegn grönnum sínum í Þór og sagði Einar að Þórsararnir væru sýnd veiði en ekki gefin: ,,Þór eru búnir að gera mér og mínum mönnum það ljóst að þegar þeir koma í Kópavoginn í febrúar verður hörkuslagur. Þeir eru t.d. fyrstir til að fara með sigur af Selfossi í vetur,” sagði Einar en þó sannkallaðir toppslagir séu framundan hjá Blikum eru markmiðin skýr. 

,,Markmið númer eitt er að komast upp í efstu deild, því fyrr því betra og stefnan er sett á fyrsta sætið í deildinni og við teljum okkur hafa fulla burði til þess. Nú eigum við tvo leiki á næsta lið og höfum þetta í okkar höndum,” sagði Einar sem lék í kvöld án bakvarðarins öfluga Rúnars Inga Erlingssonar. 

,,Rúnar fór í ómskoðun í dag og þá kom í ljóst að það er ekkert slitið og hann verður vonandi farinn að æfa á næstu tveimur vikum,” sagði Einar en Rúnar meiddist nýverið á ökkla en hann hefur verið fyrsti leikstjórnandi hjá Breiðablik í vetur. 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -