spot_img
HomeFréttirSeiglusigur ÍR í Seljaskóla (Umfjöllun)

Seiglusigur ÍR í Seljaskóla (Umfjöllun)

22:33
{mosimage}

(Hreggviður hrökk í gang í síðari hálfleik) 

Baráttuglaðir ÍR-ingar lögðu Njarðvík 90-86 í Seljaskóla í kvöld en Njarðvíkingar leiddu leikinn lengst af, heimamenn gáfust aldrei upp og uppskáru mikilvægan baráttusigur. Hreggviður Magnússon og Nate Brown gerðu báðir 24 stig í liði ÍR og hitnaði verulega í Hreggviði á lokasprettinum en segja má að hann og Eiríkur Önundarson hafi gert út af við Njarðvíkinga. Damon Bailey gerði 30 stig í liði Njarðvíkur sem lék góða vörn í kvöld en vandræðalegur sóknarleikur í síðari hálfleik varð þeim að falli. 

Njarðvíkingar virtust ætla að stinga af í upphafi leiks þegar Brenton Birmingham kom gestunum í 4-12 með þriggja stiga körfu en heimamenn voru aldrei langt undan og staðan 18-26 fyrir Njarðvík að loknum fyrsta leikhluta.  

Þorsteinn Húnfjörð kom sterkur inn í lið ÍR í 2. leikhluta og varði m.a. glæsilega skot frá Agli Jónassyni og náði þannig aðeins að kynda undir sínum mönnum. Njarðvíkurvörnin gaf þó ekki mörg færi á sér og því komust Njarðvíkingar lítið eitt fram úr ÍR. Staðan í leikhléi var 34-45 Njarðvíkingum í vil og Damon Bailey kominn með 16 stig í liði gestanna en Nate Brown var stigahæstur hjá ÍR í hálfleik með 9 stig.  

{mosimage}
(Damon Bailey bar af í Njarðvíkurliðinu með 30 stig)

ÍR-ingar börðust af miklum krafti frá fyrstu mínútu í síðari hálfleik á meðan Njarðvíkingar gáfu eftir og þá sérstaklega í sóknarleiknum. Sveinbjörn Claessen jafnaði metin í 56-56 af vítalínunni og þá virtust heimamenn ranka við sér og átta sig á því að sigur væri vel mögulegur. Leikhlutanum lauk svo í stöðunni 62-62 þar sem Brenton Birmingham náði að jafna metin fyrir Njarðvík á lokasekúndu leikhlutans. 

Fjórði leikhluti var æsispennandi og skipti þar sköpum fyrir ÍR að þeir Eiríkur Önundarson og Hreggviður Magnússon hrukku í gírinn. Félagarnir voru beittir á báðum endum vallarins og heimamenn börðust ötullega í fráköstunum og fengu þannig oft og mörgum sinnum annan möguleika á því að skora. ÍR tók 32 fráköst í leiknum á móti 23 hjá Njarðvík. 

Þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka var staðan 83-77 fyrir ÍR en Njarðvíkingar gerðu vel að minnka muninn í 87-84 en lengra komust þeir ekki og ÍR hafði að lokum sigur 90-86 og fögnuðu vel. ÍR hefur nú 12 stig í 7. sæti deildarinnar en Njarðvíkingar hafa áfram 16 stig í 4. sæti deildarinnar.

Þorsteinn Húnfjörð átti vaflítið tilþrif leiksins. Hann byrjaði á því að verja skot Egils Jónassonar með miklum tilþrifum og skömmu síðar í 2. leikhluta bruanði Nate Brown inn í teig en sniðskot hans geigaði. Þorsteinn kom þá að vífandi og tróð boltanum viðstöðulaust í netið með miklum tilþrifum.  

Annars kom það nokkuð á óvart í leiknum í kvöld hve slöpp liðin voru á vítalínunni. Njarðvíkingar brenndu af 10 vítaskotum í leiknum og ÍR af 8. Í jafn sterkri deild og úrvalsdeildin er í dag mun þessi nýting ekki fleyta liðunum langt. 

Gangur leiksins:
4-12, 18-26, 25-36, 34-45, 50-54, 62-62, 77-76 90-86. 

Tölfræði leiksins 

[email protected]

{mosimage}

(Eiríkur Önundarson lék vel á lokasprettinum í kvöld)

{mosimage}

{mosimage}

 

Fréttir
- Auglýsing -