spot_img
HomeFréttirSterk Njarðvíkurvörn afgreiddi Keflvíkinga (Umfjöllun)

Sterk Njarðvíkurvörn afgreiddi Keflvíkinga (Umfjöllun)

22:30

{mosimage}

 

(Damon Bailey átti stórgóðan leik í Njarðvíkurliðinu í kvöld) 

 

Njarðvíkingar urðu í kvöld fyrstir liða til þess að ná í deildarsigur í Sláturhúsinu í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Fjölmenni mætti til þess að fylgjast með grannarimmu liðanna sem lauk með 75-88 sigri Njarðvíkur. Gestirnir úr Njarðvík tóku snemma frumkvæðið og leiddu frá upphafi til enda. Teitur Örlygsson þjálfari Njarðvíkinga var að vonum sáttur í leikslok. Frá þessu er greint á vefsíðu Víkurfrétta, www.vf.is

 

 

„Varnarleikurinn var sérstaklega góður í fyrri hálfleik og þá vorum við einnig að frákasta vel. Sóknin gekk líka vel bæði gegn svæðisvörn Keflavíkur og maður á mann vörninni þeirra. Við stóðum í lappirnar núna og kláruðum leikinn en það var eitthvað sem okkur tókst ekki gegn ÍR á dögunum,“ sagði Teitur í leikslok og bætti við. „Lélegu kaflarnir okkar eru styttri og færri en áður og nú höfum við mánuð til að taka framförum og verða klárir fyrir úrslitakeppnina,“ sagði Teitur.

 

Bobby Walker opnaði leikinn fyrir Keflavík með þriggja stiga körfu en Njarðvíkingar létu það ekki slá sig út af laginu og komust í 7-10 en Tommy Johnson jafnaði metin í 12-12 með þriggja stiga körfu. Keflvíkingar áttu í mesta basli með Damon Bailey sem lék lausum hala undir körfunni og fiskaði fjöldan allan af villum á varnarmenn Keflavíkur. Leikhlutanum lauk svo í stöðunni 21-26 Njarðvík í vil.

 

Varnarleikur beggja liða þéttist svo töluvert í öðrum leikhluta og Keflvíkingar héldu áfram að fá dæmdar á sig hverja villuna á fætur annarri. Þess má geta að Njarðvíkingar fengu 44 vítaskot í leiknum en Keflvíkingar aðeins 12. Keflvíkingar brugðu á það ráð að reyna svæðisvörn en Njarðvíkingar leystu jafn vel úr henni og maður á mann vörn Keflavíkur.

 

Stórskyttan Magnús Gunnarsson gerði sín fyrstu stig í leiknum þegar fjórar mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta en Njarðvíkingar gættu hans vel og vandlega. Magnús lauk leik með 7 stig og hefur oft látið betur að sér kveða.

 

{mosimage}

 

(Arnar Freyr Jónsson og Hörður Axel Vilhjálmsson berjast um boltann)

 

Anthony Susnjara fékk sína þriðju villu í liði Keflavíkur þegar skammt var til hálfleiks og Njarðvíkingar héldu með 14 stiga forystu til leikhlés 35-49. Damon Bailey var allt í öllu í sóknarleik Njarðvíkur með 20 stig í leikhléi en Susnjara var með 12 í liði Keflavíkur.

 

Þrátt fyrir langa og væntanlega harðorða hálfleiksræðu Sigurðar Ingimundarsonar voru það Njarðvíkingar sem komu beittari til leiks í síðari hálfleik og náðu að auka muninn í 20 stig, 42-62. Eftir slaka frammistöðu lykilmanna í Keflavíkurliðinu var leikmönnum á borð við Þröst Leó Jóhannsson, Sigurð Þorsteinsson og Arnar Frey Jónsson misboðið og tóku þeir að sér hluti sem Bobby Walker, Tommy Johnson og aðrir reynslumeiri leikmenn Keflavíkur liðsins eru vanir að sjá um.

 

Keflvíkingar náðu af miklu harðfylgi að minnka muninn niður í 60-68 með glæstum endaspretti í þriðja leikhluta og Friðrik Stefánsson var kominn með fjórar villur í Njarðvíkurliðinu.

 

Þrátt fyrir glæsta baráttu hjá Þresti, Sigurði og Arnari þá reyndist forskot Njarðvíkinga aðeins of mikið og sigldu gestirnir í átt að 13 stiga sigri, 75-88. Damon Bailey var með 29 stig, 12, fráköst og 4 stoðsendingar í Njarðvíkurliðinu en hann varði langvinnum stundum á vítalínunni í kvöld og setti niður 15 af 18 vítaskotum sínum í kvöld. Bailey einn og sér fékk fleiri vítaskot en allt Keflavíkurliðið samanlagt.

 

Bobby Walker var með 21 stig í Keflavíkurliðinu en Tommy Johnson gerði aðeins 8 stig. Þá gerði Anthony Susnjara aðeins 2 stig í síðari hálfleik og lauk leik með 14 stig og 8 fráköst. Jón N. Hafsteinsson komst ekki á blað í kvöld og Magnús Gunnarsson gerði aðeins 7 stig. Þeir Þröstur Leó, Sigurður og Arnar Freyr stóðu sig með mikilli prýði en Þröstur setti niður 12 stig og barðist af miklum krafti þær 20 mínútur sem hann lék í leiknum.

 

{mosimage}

 

(Sverrir Þór Sverrisson hafði í kvöld sigur gegn sínum gömlu félögum í Keflavík)

 

Sterkur varnarleikur Njarðvíkinga skilað þeim þessum góða sigri í Sláturhúsinu í kvöld og að leikjum kvöldsins loknum eru Keflvíkingar engu að síður áfram á toppi deildarinnar með 26 stig en Njarðvíkingar hafa 18 stig í 4. sæti deildarinnar.

 

„Við vorum bara lélegir í kvöld og ungu mennirnir voru þeir sem spiluðu af einhverju viti í kvöld. Við erum ekki með það breiðan hóp að við getum leyft okkur þetta að svona margir í okkar liði spili illa. Það er ekkert breytt hjá okkur og við erum bara búnir að tapa tveimur leikjum í deildinni og einhver myndi telja það gott. Við erum pollrólegir þó við töpum einum og einum leik. Forystan okkar er ennþá í góðu lagi,“ sagði Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur í samtali við Víkurfréttir í leikslok.

 

Gangur leiksins:

5-5, 12-12, 21-26

23-33, 32-41, 35-49

35-59, 42-62, 60-68

66-76, 68-82, 75-88

 

Tölfræði leiksins

 

Frétt og myndir af www.vf.is

 

{mosimage}

 

(Jón N. Hafsteinsson sækir að Njarðvíkurkörfunni)

{mosimage}

(Þröstur Leó Jóhannsson barðist vel fyrir Keflvíkinga)

{mosimage}

(Njarðvíkingar fjölmenntu á pallana í Sláturhúsinu og fögnuðu vel með sínum mönnum)

 

Fréttir
- Auglýsing -