00:25
{mosimage}
(Hlynur Bæringsson var besti maður vallarins í kvöld)
Í kvöld mættust Stjarnan og Snæfell í Iceland Express deild karla. Leikurinn fór fram í Ásgarði í Garðabæ. Fyrir leikinn sigldi Snæfell lygnan sjó um miðja deild en Stjarnan þurfti nauðsynlega á stigum að halda til að fjarlægast botninn enn frekar.
Fyrsti leikhluti var einkennilegur á að horfa. Þrátt fyrir viðunandi stigaskor virtust menn ryðgaðir og varnir voru ekki upp á marga fiska, sérstaklega ekki Stjörnuvörnin. Það var því slökum varnarleik, frekar en sterkum sóknarleik að þakka að skoruð voru jafnmörg stig og raun bar vitni. Snæfellingar höfðu yfirhöndina í leikhlutanum en náðu þó ekki að hrista spræka Stjörnupilta af sér. Eftir góða troðslu frá Calvin Roland tók Stjarnan eins stigs forystu og eftir 1. leikhluta var staðan 29-28, heimamönnum í vil.
Stjarnan hóf annan leikhluta ágætlega og komst fljótt í 5 stiga forskot. Snæfellingar svöruðu þó fljótt fyrir sig og með Hlyn og Justin í fararbroddi náði Snæfell að jafna og komast yfir. Liðin skiptust á að hafa forystu það sem eftir lifði leikhlutans, en að honum loknum voru það drengirnir að vestan sem voru tveim stigum yfir, 56-58, í skemmtilegum körfuboltaleik.
Í þriðja leikhluta var Snæfell ávallt skrefinu á undan. Vörn heimamanna var stirð og þeir geta þakkað þriggja stiga skotum Kjartans Kjartanssonar og Dimitars fyrir að Snæfell hafi ekki náð stærri forystu. Staðan fyrir lokaleikhlutan var 74-76 gestunum í vil.
{mosimage}
(Fannar Helgason sækir að körfu Snæfellinga)
Snæfell hóf fjórða leikhluta mun sterkar og komust 7 stigum yfir þegar 5 mínútur voru eftir. Þá tók við skrautleg sena. Kjartan Kjartansson vann boltann af Justin Shouse og bað hann um boltann. Justin brást illa við en hélt þó ró sinni. Jón Ólafur Jónsson, fyrrum Stjörnumaður, kom þá aðvífandi og ýtti við Kjartani og uppskar tæknivillu. Kjartan fór á línuna og minnkaði muninn í fimm stig, Stjarnan náði varnarfrákasti og Guðjón Lárusson náði glæsilegu “three point play.” Staðan skyndilega 90-92 og leikurinn æsispennandi. Snæfellingar flýttu sér í næstu sókn en gekk illa að nýta hana og var svo komið að með 3 sekúndur á skotklukkunni stóð Hlynur Bæringsson, miðherji með meiru, fyrir utan þriggja stiga línuna með knöttinn í lúkunum. Hlynur gerði sér þó lítið fyrir og smellti þristinum um leið og flautan gall og má segja að þar hafi slokknað í Stjörnumönnum. Snæfellingar litu ekki aftur eftir það og unnu að lokum tíu stiga sigur, 94-104.
Hlynur Bæringsson var sannarlega haukur í horni Snæfellinga í kvöld en hann var nálægt þrennunni með 31 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar. Þá skoraði Justin Shouse 20 stig.
Hjá Stjörnunni var Dimitar með 22 stig en Calvin Roland skoraði 17, auk 10 frákasta, en Calvin fékk sína 5 villu fljótt í fljótt í fjórða leikhluta og var það skarð fyrir skildi hjá heimamönnum.
Texti: Elías Karl Guðmundsson
Myndir: Snorri Örn Arnaldsson
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}