spot_img
HomeFréttirKeflvíkingar unnu 11 stiga sigur í Seljaskóla, 77-88 (Umfjöllun)

Keflvíkingar unnu 11 stiga sigur í Seljaskóla, 77-88 (Umfjöllun)

21:58
{mosimage}

 

 

(Arnar Freyr Jónsson sækir að körfu ÍR í Seljaskóla) 

 

 

ÍR tóku á móti toppliði Iceland Express deildarinnar, Keflavík, í Seljaskóla í kvöld.  ÍR-ingar byrjuðu leikinn mjög vel og leiddu mest með 11 stigum í fyrsta leikhluta og voru á köflum að spila mjög góða vörn, en það forskot dugði skammt því gestirnir frá Keflavík komu sterkir til baka í öðrum leikhluta og leiddu í hálfleik með 7 stigum, 39-47. Það var svo aldrei spurning hvoru megin sigurinn færi í seinni hálfleik en munurinn var mest um 20 stig undir lok þrijða leikhluta. Keflavík sigraði svo með 11 stiga mun, 77-88. Stigahæstir hjá Keflavík voru Bobby Walker með 20 stig, Sigurður Þorsteinsson með 18 stig og Tommy Johnson með 13 stig. Hjá ÍR var Nate Brown atkvæðamestur með 17 stig en næstir voru það Sveinbjörn Claessen og Hreggviður Magnússon með 15 stig hvor.

 

ÍR-ingar byrjuðu leikinn af krafti og virtist sem ófærðin á leiðinni í bæinn hefði einhver áhrif á leik Keflvíkinga því heimamenn náðu 6-0 forystu og svo 9-2 þegar tæplega þrjár mínútur voru liðnar af leiknum. Gestirnir voru að tapa boltanum klaufalega sem ÍR-ingar nýttu með því að bruna upp völlinn. Þegar leikhlutinn var hálfnaður var munurinn 9 stig 15-4 og varnarleikur Keflavíkinga nánast ekki til staðar. Þeir náðu þó aðeins að rétta sinn hlut þegar leið á leikhlutan og var munurinn kominn niður í 5 stig, 23-18, þegar um mínúta var eftir af leikhlutanum. Þeir komust þó ekki nær en það því heimamenn unnu fyrsta leikhluta með 26 stigum gegn 20. ÍR-ingar spiluðu fína vörn í fyrsta leikhluta og virtust koma gestunum nokkuð á óvart. 

 

Keflvíkingar ákváðu svo að byrja að spila vörn í öðrum leikhluta og voru búnir að minnka muninn niður í 2 stig þegar rúmlega tvær mínútur voru liðnar, 28-26.  Heimamenn voru í miklum vandræðum með aggressíva svæðisvörn Keflvíkinga sem komust yfir í fyrsta skiptið í leiknum þegar um 4 mínútur voru liðnar af leikhlutanum, 29-31. Stuttu seinna tók Jón Arnar Ingvarsson leikhlé til að skerpa sína menn en þá höfðu ÍR-ingar aðeins skorað 5 stig á 5 mínútum. Það virtist þó eins og ÍR-ingar hefðu aldrei æft neinar lausnir við pressuvörn því þeir töpuðu boltanum trekk í trekk á sínum egin vallarhelmingi og misstu því Keflvíkingana hratt fram úr sér. Þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum voru gestirnir komnir 7 stigum yfir, 34-41. Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn enn 7 stig, 39-46, eftir að Arnar Jónsson klikkaði úr tveimur af línunni og Sveinbjörn Claessen fékk boltan upp við körfu gestana og lagði sniðskotið niður á lokasekúndunni.

 

Stigahæstir í hálfleik voru hjá ÍR Hreggviður Magnússon með 11 stig en hann skoraði aðeins 1 stig í öðrum leikhluta og Nate Brown og Tahiro Sani með 8 stig hvor. Hjá Keflavík voru það Anthony Susnjara og Tommy Johnson með 8 stig hvor og aðrir minna. 

 

Keflvíkingar héldu uppteknum hætti í byrjun þriðja leikhluta og spiluðu svæðisvörn sem heimamenn réðu illa við. Sóknartilburðir ÍR-inga voru því á köflum vandræðalegir og enduðu í lélegum skotum eða hreinlega að henda boltanum frá sér.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður var munurinn kominn upp í 13 stig, 47-60, og gestirnir  virtust vera að sigla frammúr. Þegar um mínúta var eftir af leikhlutanum var munurinn kominn uppí 19 stig, 54-73, og fátt sem benti til þess að ÍR-ingar væru að fara að stoppa sóknarleik gestana. ÍR-ingar náðu þó að rétta sinn kút örlítið af vítalínunni á lokamínútunni og staðan þegar leikhlutanum lauk, 57-73. 

{mosimage}

(Sani og Susnjara berjast um frákastið)

  

Bæði lið byrjuðu fjórða leikhluta á fínni vörn en stigaskorið hjá báðum liðum var mun lægra en í leikhlutunum sem á undan höfðu gengið. Þegar leikhlutinn var hálfnaður var staðan 65-80 og heimamenn virtust vera að saxa hægt og rólega á forskot Keflavíkur. Þegar um tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum var munurinn kominn niður í 11 stig, 71-82, og leikmenn ÍR klaufar að hafa ekki minnkað muninn meira því mörg opin skot höfðu farið forgörðum í leikhlutanum. Það var þó aldrei spurning hvorum megin sigurinn lenti og lokastaðan var 77-88 og 11 stiga sigur Keflavíkur því staðreynd. Bobby Walker átti fínan seinni hálfleik fyrir Keflavík og Sigurður Þorsteinsson kom virkilega sterkur inn af beknum, Magnús Gunnarsson var hins vegar fjarri sínu besta og skoraði aðeins 4 stig í kvöld. Hjá ÍR-ingum voru það að vanda Hreggviður, Sveinbjörn og Nate Brown sem báru uppi stigaskor liðsins en þeir fengu því miður litla hjálp af bekknum í kvöld og munaði um minna.

 

Tölfræði leiksins

 

Texti: Gísli Ólafsson

Myndir: Jón Björn Ólafsson, [email protected]

 

 

 

{mosimage}

 

 

 

{mosimage}

 

 

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -