spot_img
HomeFréttirSeiglusigur hjá Íslandsmeisturunum í Njarðvík(Umfjöllun)

Seiglusigur hjá Íslandsmeisturunum í Njarðvík(Umfjöllun)

23:13
{mosimage}

(Friðrik Stefánsson í baráttunni gegn J.J. Sola) 

Njarðvíkingar töpuðu í kvöld öðrum stórleik á heimavelli og að þessu sinni gegn KR í Iceland Express deild karla. Lokatölur voru 106-97 KR í vil en Njarðvíkingar höfðu pálmann í höndunum en gáfu eftir í síðari hálfleik og af miklu harðfylgi náðu Íslandsmeistararnir að landa sigri í Ljónagryfjunni. Frá þessu er greint á www.vf.is  

Eftir leiki kvöldsins eru KR-ingar enn í 2. sæti með 26 stig, 2 stigum á eftir Keflavík á toppi deildarinnar með 28 stig. Njarðvíkingar eru í 5. sæti með 18 stig en Skallagrímur hafði sigur á Fjölni í Grafarvogi í kvöld og hafa því tveggja stiga forskot á Njarðvíkinga með 20 stig.  

Njarðvíkingar geta nagað sig í handarbökin yfir frammi stöðu sinni gegn KR þar sem liðið hafði góða forystu þegar komið var í þriðja leikhluta. Njarðvíkingar glopruðu niður stöðunni 65-49 í 80-79. Íslandsmeistarar KR léku á als oddi í síðari hálfleik á meðan Njarðvíkingar áttu í basli í sóknarleiknum þar sem Damon Bailey lenti í villuvandræðum í Njarðvíkurliðinu sem léku án miðherjans Egils Jónassonar sem í fyrradag fór í aðgerð á hné. 

Helgi Magnússon var sjóðheitur í liði KR og setti niður hverja þriggja stiga körfuna á fætur annarri. Þá var Joshua Helm fantasterkur hjá KR og miklu munaði um að Jeremiah Sola vaknaði til lífsins í síðari hálfleik og sýndi gamla takta í Ljónagryfjunni.  

Þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka í Njarðvík setti Helgi Magnússon niður þirggja stiga körfu og breytti stöðunni í 91-96. Njarðvíkingar komust ekki nærri og KR fagnaði góðum 97-106 sigri.  Rimmur Njarðvíkinga og KR svíkja ekki körfuknattleiksunnendur en leikur kvöldsins var jafn og spennandi eins og títt er með þessa slagi og að lokum voru það Íslandsmeistararnir sem vildu stigin tvö.  

Helgi Már Magnússon var kátur í samtali við Guðjón Guðmundsson á SÝN eftir leik og sagði að KR-ingar hefðu ákveðið að leika ákveðnari vörn í síðari hálfleik en þeir voru að gera í þeim fyrri. ,,Benni vildi sjá betri vörn og ekki láta berja okkur sundur og saman. Við spiluðum bara eitthvað hnoð í fyrri hálfleik og svo kom fantavörn og þá kemur þetta af sjálfu sér,” sagði Helgi við SÝN. 

Teitur Örlygsson viðurkenndi í samtali við Guðjón að Njarðvíkingar hefðu ekki mátt við því að missa Damon Bailey í villuvandræði. ,,Við að missa Damon út af fékk Joshua Helm að leika lausum hala og ég veit ekki hvað við misstum marga bolta í síðari hálfleik. Við megum ekki við því að missa menn út af þar sem við erum bara með einn erlendan leikmann og þá verður þetta erfitt,” sagði Teitur en Guðjón bætti við spurningu og innti Teit eftir því hverjir hann teldi að yrðu Íslandsmeistarar.,,Þetta er allt svo jafnt og það eru fullt af frábærum körfuboltaliðum hérna svo baráttan verður hörð,” svaraði Teitur í viðtali við SÝN. 

Tölfræði vantar enn úr viðureign Njarðvíkur og KR

 www.vf.is

{mosimage}

 

Fréttir
- Auglýsing -