spot_img
HomeFréttirTvö stig í Hólminn(Umfjöllun)

Tvö stig í Hólminn(Umfjöllun)

10:40

{mosimage}

Snæfell mætti á Krókinn í kvöld og hvarf á braut með bæði stigin sem voru í boði. Unnu sextán stiga sigur á döprum heimamönnum í leik með enn daprari dómurum. Frá þessu er greint á heimasíðu Tindastóls.


Stólarnir byrjuðu leikinn vel og komust í 8-2 á meðan Snæfellingum voru mislagðar hendur í sókninni. Magni setti þá þrist fyrir gestina og þeir vöknuðu til lífs. Í stöðunni 12-13 hrökk allt í baklás hjá Stólunum og Snæfell gerði síðustu 10 stig fjórðungsins og staðan 12-23 eftir fyrsta leikhlutann.

Tindastóll kom til baka í 2. fjórðungi smátt og smátt og komst yfir 33-31 þegar rúmar þrjár mínútur voru til hálfleiks. Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði leikhlutans, en tvö víti frá Svabba gáfu Stólunum tveggja stiga forskot í hléi.

Í þriðja leikhluta má segja að Snæfell hafi gert út um leikinn. Þeir unnu hann 14-26, Justin Shouse fór mikinn og lítið gekk hjá heimamönnum og ekki hjálpaði dómgæslan mikið til. Staðan að loknum þremur leikhlutum var 53-63.

Gestirnir kláruðu svo leikinn endanlega með því að skora fyrstu 9 stig fjórða leikhluta. Staðan orðin 53-72 og þrátt fyrir tilraunir Tindastólsmanna til að minnka muninn náðu þeir honum aðeins niður í 16 stig stig fyrir leikslok. Leikurinn endaði  71-87. Stólarnir áttu alls ekki sinn besta leik í kvöld, þeir áttu fá svör við svæðisvörn gestanna á stórum köflum. Létu slaka dómgæslu fara í taugarnar á sér og sóknarleikur liðsins var dapur auk þess sem Snæfell tók 26 fráköstum fleira í leiknum, þremur fleira en Tindastólsliðið tók í öllum leiknum eða 23 fráköst.

Hlynur Bæringsson var bestur gestanna með 16 stig og 18 fráköst. Enginn skaraði framúr hjá Stólunum. Serge var alveg núll í sókninni, Joshua og Philip áttu sína spretti, Samir hitti ekki vel. Ísak hefur oft leikið betur, en var fljótt úr leik með þrjár villur strax í fyrsta fjórðungi. Svabbi átti þokkalegasta leik fyrir innan þriggja stiga línuna, en hitti ekkert utan hennar. Halli stóð sig vel á sínum 17 mínútum, hitti tveimur af þremur þristum og stal þremur boltum og kom sterkur inn. Leynivopnið Óli Barðdal kom öflugur inn, kannski full öflugur að sumra mati, var aðeins rygðaður í byrjun, en stóð sig samt vel.

Stólarnir verða samt að fara að rífa sig upp á rassgatinu ef ekki á illa að fara á lokaspretti mótsins. Bæði Stjarnan og Þór unnu í kvöld, en bót í máli að Þór vann Hamar svo staða Hamars er að verða slæm og allt bendir til falls hjá þeim.

Dómarar voru Jón Guðmundsson og Guðni E. Guðmundsson. Samræmi lítið í dómum þeirra og áttu þeir alls ekki sinn besta dag og langt frá því. Þrátt fyrir slaka dómgæslu þá réð hún ekki úrslitum í kvöld, Snæfell var einfaldlega betra liðið í kvöld og áttu sigurinn skilinn.

Tölfræðin

Texti: Jóhann Sigmarsson.

Mynd: Símon Hjaltalín

Fréttir
- Auglýsing -