spot_img
HomeFréttirRúnar Ingi: Ætlaði ekki að vera skúrkurinn aftur

Rúnar Ingi: Ætlaði ekki að vera skúrkurinn aftur

23:37
{mosimage}

(Rúnar Ingi Erlingsson) 

Skjótt skipast veður í lofti og því fékk Rúnar Ingi Erlingsson að kynnast í kvöld þegar hann sallaði niður sigurstigum Breiðabliks af vítalínunni og sendi Blika í Iceland Express deildinni þar sem Kópavogsliðið mun leika á næstu leiktíð. Blikar lögðu Valsmenn 64-62 í Smáranum í 1. deild karla í kvöld og hafa því unnið 15 leiki og tapað einum á þessari leiktíð. Rúnar var sæll í leikslok en í tveimur leikjum hefur hann tekið sjö gríðarlega mikilvæg vítaskot með misalvarlegum afleiðingum.

Á laugardag lék Rúnar með Blikum gegn KR í drengjaflokki í bikarhelgi yngri flokka á Selfossi. Þar var hann staddur á vítalínunni þegar aðeins örfáar sekúndur voru til leiksloka og gat jafnað leikinn í 84-84 en staðan var 84-81 fyrir KR og brotið á Rúnari í þriggja stiga skoti. Rúnar brenndi af þriðja vítinu gegn KR og tók súr í broti við silfurverðlaunum í bikarkeppninni. Það var allt annað uppi á teningnum í kvöld hjá kappanum sem lét ekki 39 stiga hita aftra sér frá því að skjóta Blikum upp um deild.  

,,Þetta var sætt og það kom ekki til greina að klikka aftur á vítaskotunum á síðustu sekúndunum,” sagði Rúnar í samtali við Karfan.is en hann átti fjögur mikilvæg vítaskot á lokaspretti leiksins og nýtti þrjú þeirra en það dugði til sigurs.

Hvað fór í gegnum huga hans þegar fyrsta vítaskotið hans af fjórum fór forgörðum? 
,,Þegar fyrsta klikkaði hugsaði ég með mér að ég ætlaði mér ekki að vera sami skúrkurinn og ég var um helgina því svekkelsið hefur verið nóg síðustu daga en það er sem betur fer stutt á milli hláturs og gráturs,” sagði Rúnar sem fyrir leikinn í kvöld hafði ekki snert á körfubolta síðan á laugardag. 

,,Ég er búinn að liggja í rúminu veikur síðan á sunnudag og síðast þegar ég snerti bolta var það í þessu örlagaríka víti í drengjaflokki á laugardag,” sagði Rúnar sem kvaðst spenntur fyrir því að leika með Blikum í úrvalsdeild á næstu leiktíð.  

Þetta hafa því verið sjö risavaxin vítaskot í síðustu tveimur leikjum hjá Rúnari þar sem fimm þeirra rötuðu rétta leið og ljóst að þarna er á ferðinni piltur með stáltaugar. 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -