spot_img
HomeFréttirUnnur Tara: Upp með hausinn!

Unnur Tara: Upp með hausinn!

23:43
{mosimage}

(Unnur Tara í baráttunni gegn Keflavík í kvöld) 

Unnur Tara Jónsdóttir leikmaður Hauka var að vonum nokkuð svekkt yfir ósigri Hauka gegn Keflavík í úrslitakeppni Iceland Express deildar kvenna í kvöld. Staðan er 2-0 í einvíginu Keflavík í vil og Haukar uppi við vegg. Íslandsmeistararnir verða að vinna í Keflavík á miðvikudag að öðrum kosti eru þær komnar í sumarfrí. Í báðum leikjunum hefur Haukaliðið haft betur í frákastabaráttunni en það hefur ekki dugað til. Unnur sagði í samtali við Karfan.is að nú þýddi ekkert að hengja haus. 

,,Þetta er frekar erfitt, við verðum að taka þrjá leiki í röð núna en það er allt hægt og við eigum alveg séns í Keflavík og sýndum það t.d. í fyrsta leik. Í kvöld vorum við einfaldlega lélegar í þriðja leikhluta,” sagði Unnur Tara sem gerði 8 stig í kvöld og tók 8 fráköst. 

,,Keflavík er með rosalega góðar skyttur og við eigum að loka fyrir skotin þeirra og þetta er eitthvað sem við verðum að skoða nánar,” sagði Unnur en Keflvíkingar settu niður 14 þrista í kvöld og skoruðu úr 16 af 19 vítaskotum sínum í leiknum.  

,,Nú er það bara upp með hausinn, það er svo lítið eftir og við megum ekki hengja haus. Við í Haukums stöndum saman og ætlum að klára þetta eins vel og við getum. Ef þetta verður okkar síðasti leikur á miðvikudag ætlum við að hafa eins gaman af þessu og við getum,” sagði Unnur en hvað þarf að koma til hjá Haukaliðinu fyrir miðvikudaginn? 

,,Við þurfum að koma með hausinn mun meira tilbúnari í leikinn og mér fannst vanta baráttu í okkur í kvöld eins og við t.d. byrjuðum fyrsta leikinn og þar vorum við óheppnar að henda leiknum frá okkur. Við svekkjum okkur aðeins í kvöld en einbeitum okkur svo að fullu að miðvikudeginum,” sagði Unnur. 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -