spot_img
HomeFréttirFékk opin skot og lét vaða (Umfjöllun)

Fékk opin skot og lét vaða (Umfjöllun)

23:26
{mosimage}

(Fagnaðarlætin létu ekki á sér standa í DHL-Höllinni) 

Nýliðar KR sendu í kvöld bikarmeistara Grindavíkur í sumarfrí eftir 83-69 sigur í oddaleik liðanna í úrslitakeppni Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik. Fyrir fjórða og síðasta leikhluta var staðan 59-54 en KR-ingar tóku öll völd í fjórða leikhluta með því að gera 18 stig gegn 6 frá Grindavík fyrstu sex mínúturnar í síðasta leikhlutanum og þar með var björninn unninn. Þær Candace Futrell og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir léku frábærlega fyrir KR í kvöld en Tiffany Roberson og Ólöf Helga Pálsdóttir voru hvað líflegastar hjá Grindvíkingum. 

Þegar Grindavík var með þær Hildi Sigurðardóttur og Candace Futrell í gjörgæslu losnaði um aðra leikmenn KR og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir nýtti tækifærið í kvöld. ,,Grindavík lögðu mikla áherslu á að stoppa Hildi og Candace og í staðinn fékk ég bara opin skot og í kvöld lét ég vaða,” sagði Sigrún sem skoraði úr þremur af sex þriggja stiga tilraunum sínum í leiknum. 

{mosimage}

 

,,Mér líst vel á einvígið gegn Keflavík og ef við spilum eins og við gerðum í fyrstu tveimur leikjunum og í kvöld þá eigum við gott erindi í Keflavík. Þær munu reyna að pressa okkur og vilja hafa leikinn hraðann. Við verðum að ná að sitja í bílstjórasætinu gegn Keflavík en fyrst verðum við að koma okkur á jörðina og ná einbeitingu,” sagði Sigrún sem í kvöld lauk leik með 23 stig, 14 fráköst og 4 stoðsendingar. 

Igor Beljanski þjálfari Grindavíkur telur að sínir leikmenn hafi einfaldlega verið of stressaðir fyrir leikinn í kvöld. ,,Stelpurnar hugsuðu of mikið um leikinn og hafa verið stressaðar en fyrst og fremst vil ég óska KR til hamingju með árangurinn því þær stóðu sig vel og komu okkur oft úr jafnvægi. Leikurinn í kvöld var ekki okkar besti og ég tel að álagið hafi náð til minna leikmanna. Við vorum ekki að frákasta vel í einvíginu sem heild og ásamt því léku KR-ingar mjög góða vörn gegn okkur,” sagði Igor en bætti við: 

,,Við viljum alltaf meira og það heldur okkur gangandi og vissulega er það dapurt að ná að jafna einvígið og tapa svo í kvöld,” sagði Igor en var þó ánægður með baráttuvilja sinna leikmanna en verður hann áfram með liðið á næstu leiktíð? 

,,Ég bara hef ekki hugmynd um það. Nú tekur bara við úrslitakeppnin með karlaliði Grindavíkur og þar tel ég okkur eiga góða möguleika á að ná langt. Úrslitakeppnin hjá körlunum hefur sjaldan eða aldrei verið jafnari þar sem allir virðast nú geta unnið alla,” sagði Igor. 

Tiffany Roberson hóf leik með því að hafa gætur á Hildi Sigurðardóttur í kvöld og hélt Hildi stigalausri fyrstu sjö mínútur leiksins og það hafði augljós áhrif á sóknarleik KR. Grindvíkingar voru skrefinu á undan í upphafi leiks og Ólöf Helga að finna taktinn í sókninni. Staðan var 17-18 fyrir Grindavík eftir fyrsta leikhluta en snemma í öðrum leikhluta vaknaði Hildur af værum blundi og þá færðist aukið líf í sóknarleik KR. 

{mosimage}

KR tók góða rispu og breytti stöðunni í 32-27 en Grindavík jafnaði í 32-32. Heimamenn áttu þó lokaorðið með fínum endasprett og gerðu 8 stig gegn 1 frá Grindavík og staðan því 40-33 fyrir KR í leikhléi.  

Tiffany Roberson var með 13 stig og Ólöf Helga með 10 stig hjá Grindavík í leikhléi en hjá KR var Hildur Sigurðardóttir með 12 stig þrátt fyrir daprar upphafsmínútur. 

Í síðari hálfleik voru KR-ingar skrefinu á undan og með vel skipulögðum varnarleik tókst þeim oft að koma Grindvíkingum úr jafnvægi en eftir því sem leið á síðari hálfleikinn steig Sigrún Ámundadóttir upp hjá KR og reyndist Grindavík erfiður ljár í þúfu. Staðan var 59-54 fyrir KR eftir þriðja leikhluta þar sem þær Hildur Sigurðardóttir, Candace Futrell og Sigrún Ámundadóttir léku vel hjá KR en Tiffany Roberson var allt í öllu í sóknarleik Grindavíkur. 

Frá fyrstu mínútu í fjórða leikhluta var ljóst að KR ætlaði sér sigurinn. Sóknir Grindavíkur voru hugmyndasnauðar og KR vörnin þétt og skipulögð. Guðrún Ámundadóttir kom KR í 68-56 með þriggja stiga körfu þegar 7 mínútur voru til leiksloka en þá var strax orðið ljóst að róðurinn yrði erfiður hjá gulum enda KR í fluggír. Þessar síðustu sjö mínútur reyndust algerlega í eigu KR sem vann leikhlutann 24-15 en Grindavík klóraði lítið eitt í bakkann undir lokin með tveimur þriggja stiga körfum.

Lokatölur því 83-69 eins og fyrr greinir og KR heldur áfram og mætir Keflavík í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn en Grindvíkingar eru komnir í sumarfrí. 

Tölfræði leiksins 

[email protected]

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -