spot_img
HomeFréttirHrunamenn í 1.deild (umfjöllun og myndir)

Hrunamenn í 1.deild (umfjöllun og myndir)

16:15

{mosimage}

Fjölmenni var í íþróttahúsinu á Flúðum í gær þegar Hrunamenn tóku á móti Eyjamönnum í undanúrslitum 2.deildar. Liðin höfðu ekki mæst áður í vetur, en Hrunamenn enduðu í  fyrsta sæti a-riðils 2.deildar, á meðan ÍBV hafnaði í öðru sæti í b-riðli. Liðin hafa þó oft mæst í gegnum tíðina, en bæði liðin hafa leikið í sterkum Suðurlandsriðli undanfarin ár.

Leikurinn fór fjörlega af stað, en greinilegur taugatitringur var hjá báðum liðum. ÍBV byrjaði á því að misnota auðvelt skot undir körfunni og Hrunamenn brunuðu í sókn og köstuðu boltanum út af. Það voru hins vegar ÍBV menn sem gerðu fyrstu stigin og tóku frumkvæðið í leiknum. Þeir komust yfir 9-4 og 13-8. Þá tók Sigurður Sigurjónsson fyrirliði Hrunamanna til sinna ráða, en hann átti sannkallaðan stórleik. Hann raðaði niður þremur þriggja stiga körfum á skömmum tíma, Eyjamenn náðu þó alltaf að svara, oftast af vítalínunni og staðan að loknum 1.leikhluta 21-20 heimamönnum í vil. Hrunamenn pressuðu allan völl í leikhlutanum (og raunar allan leikinn) og reyndu að tefja fyrir hávöxnu liði Eyjamanna sem mest þeir mátt. Eyjamenn leystu hins vegar pressuna ágætlega og voru duglegir við að koma boltanum inn í teig þar sem þeirra styrkur lá í þessum leik.

Í öðrum leikhluta náðu Eyjamenn góðum tökum á leiknum, þrátt fyrir að Björn Einarsson þjálfari og leikstjórnandi liðsins færi á bekkinn vegna villuvandræða. Á móti fór Atli Örn Gunnarsson, miðherji Hrunamanna einnig á bekkinn með 3 villur og áttu Hrunamenn í miklu basli í baráttunni undir körfunni. Sigurjón Lárusson lék sérstaklega vel á þessum tíma og skoraði 10 af sínum 16 stigum í leiknum. Eyjamenn héldu til hálfleiks 9 stigum yfir 34-43 og öll stemmning virtist þeirra megin á þessum tímapunkti. Hrunamenn voru ekki að hitta vel og þá var varnarleikurinn ekki nægjanlega sterkur í 2.leikhluta.

{mosimage}

Hrunamenn komu hins vegar geysilega grimmir til leiks í síðari hálfleik og léku mun betri varnarleik. Atli Örn skoraði átta stig í röð, þar af tvisvar sinnum 3point play, gegn aðeins tveimur stigum gestanna. Eyjamenn fóru að gera mistök gegn pressuvörn Hrunamanna sem skiluðu nokkrum auðveldum körfum heimamanna. Á móti nýttu Eyjamenn sér styrk sinn undir körfunni og munurinn var 3-5 stig þar til þeir Atli og Sigurður fyrirliði skoruðu þrjá þrista undir lok leikhlutans og komu Hrunamönnum yfir 62-59.

Hrunamenn byrjuðu 4.leikhlutann með látum. Atli og Sigurður bættu tveimur þristum við safnið og skyndilega var staðan orðin 74-62 heimamönnum í vil. Eyjamenn svöruðu með 12-2 áhlaupi og munurinn 76-72 þegar um 30 sek. voru eftir. Bogi Pétur leikmaður Hrunamanna fór þá á línuna, en honum brást BOGAlistin. Eyjamenn brunuðu í sókn og Gunnar Þór minnkaði muninn í tvö stig 76-74. Gestirnir brutu strax á Karli Ágústi og 7 sekúndur eftir á klukkunni. Karl skoraði úr fyrra vítinu, en það síðara rataði ekki ofan í. Eyjamenn brunuðu fram, en Karl náði boltanum og brutu Eyjamenn strax á honum. Karl fór á línuna, setti bæði ofan í og við það var björninn unnin hjá heimamönnum, lokatölur 79-74. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í íþróttahúsinu, enda langþráð sæti í 1.deild orðið að veruleika.

{mosimage}

Dómarar leiksins þeir Björn Leósson og Halldór G. Jensson höfðu mjög góð tök á leiknum. Þá var hinn þrífætti Hákon Hjartarson vel vakandi í starfi eftirlitsdómara.

Stigaskor UMFH: Sigurður Sigurjónsson 27 stig, Atli Örn Gunnarsson 23, Karl Ágúst Hannibalsson 15, Bogi Pétur Eiríksson 8 og Árni Þór Hilmarsson 6.

Stigaskor ÍBV: Sigurjón Lárusson 16, Björn Einarsson 13, Baldvin Johnsen 11, Brynjar Ólafsson 9, Sverrir Kári Karlsson 9, Þorsteinn Þorsteinsson 8 og Gunnar Þór Ásgeirsson 8

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Texti og myndir: Hrunamenn

Fréttir
- Auglýsing -