spot_img
HomeFréttirValur: Best þjálfuðu liðin í deildinni

Valur: Best þjálfuðu liðin í deildinni

13:00
{mosimage}

 

(Valur verður með stillt á Stöð 2 Sport í dag) 

 

Valur Ingimundarson hefur notið þess að vera áhorfandi á körfuboltaleikjum og heima í stofu þessa leiktíðina sem er ein sú fyrsta í mörg ár hjá kappanum þar sem hann er ekki að spila eða við stjórnartaumana. Karfan.is ræddi við Val um úrslitaeinvígið en kappinn er ekki hlutlaus ef svo má að orði komast enda bróðir hans Sigurður Ingimundarson að stýra liði Keflavíkur. Valur segir Keflavík og Snæfell vera mjög ólík lið en séu vafalítið best þjálfuðu liðin á landinu.

 

,,Bæði Keflavík og Snæfell eru gríðarlega sterk en ólík. Keflvíkingar eru minni og hraðari og það getur verið bæði plús og mínus í þessu einvígi. Keflvíkingar eru fyrst og fremst naglar en Snæfell hefur ótrúlegan hóp. Eru með þrjá erlenda leikmenn og fimm tveggja metra menn. Þá er Hlynur Bæringsson yfirburða Íslendingur í deildinni að mínu mati og svo hafa þeir Sigga, Magna og Jón Ólaf sem eru allir á topp 10 lista hjá mér yfir bestu íslensku leikmenn deildarinnar,” sagði Valur í samtali við Karfan.is.

 

,,Veiki punkturinn hjá Snæfell er að þeir hafa bara einn bakvörð, Justin Shouse er algjörlega frábær en hann fær litla hjálp og það gæti orðið veiki punkturinn í seríunni og spurningin er hvað þolir hann? Hann hefur reyndar þolað mikið hingað til. Á meðan Shouse er ekki á vellinum er leikstjórnendastaðan sú veikasta hjá Snæfell þó Slobodan geti leyst þessa stöðu sæmilega,” sagði Valur sem dáist að karakternum í Keflavíkurliðinu.

 

,,Keflvíkingar hafa farið langt á karakternum og sínum flotta leik. Þegar þeir spila sinn leik er það mjög vel æfður og flottur leikur þar sem hraðinn ræður öllu. Ef þeir ná upp sínum leik geta þeir allt eins tekið þessa seríu. Þó  hafa Snæfellingar hugsanlega forystuna hvað varðar stóru mennina en Keflvíkingar hafa margt á móti og það er jafnan ekki gaman að spila á móti litlum og fljótum liðum,” sagði Valur og bætir við að hvorugt liðið hafi nokkru að tapa í seríunni.

 

,,Snæfellingar eru búnir að taka bikarinn og Keflvíkingar eru deildarmeistarar. Keflavík er ekki með eitt best mannaðasta liðið í deildinni á meðan Snæfell hefur yfir þeirri nafnbót að ráða. Snæfell hefur bjargað vetrinum hjá sér með bikarmeistaratitli en bæði lið hafa náð langt í vetur og því nánast ómögulegt að segja til um hvað sé í vændum og hvað muni gerast. Liðin eru ólík en vel þjálfuð,” sagði Valur og það er ekki spurning um hvoru megin hann stendur.

 

,,Auðvitað held ég með bróður mínum,” sagði Valur sem átti ekki von á því að fara á völlinn. ,,Ég hef svo gaman af því að horfa á þetta í sjónvarpinu, þetta er langbesta sjónvarpsefnið, íslenskur körfubolti!”

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -