spot_img
HomeFréttirJóhann Árni: Snæfell hefur ekki sagt sitt síðasta

Jóhann Árni: Snæfell hefur ekki sagt sitt síðasta

14:57
{mosimage}

 

(Jóhann Árni Ólafsson) 

 

Karfan.is náði tali af Jóhanni Árna Ólafssyni leikmanni Njarðvíkur en grænum var sópað inn í sumarið 2-0 af bikarmeisturum Snæfells. Jóhann telur að þrátt fyrir erfiða stöðu Hólmara í einvíginu gegn Keflavík hafi bikarmeistararnir ekki sagt sitt síðasta. Jóhann Árni fékk það erfiða hlutverk að hafa gætur á Hlyni Bæringssyni í fjarveru Friðriks Stefánssonar og leysti það verkefni vel en Njarðvíkingar höfðu ekki erindi sem erfiði í bikarmeistarana sem nú eru með bakið upp við vegg gegn sjóðheitum Keflvíkingum.

 

,,Ég held að Snæfell komi til Keflavíkur og vinni leikinn. Það hefur oft reynst liðum erfitt að vinna þriðja leikinn þegar þau eiga möguleika á því að vinna 3-0. Þetta er búið að vera skemmtilegt einvígi en ég held að Snæfell vinni næsta leik og taki líka fjórða leikinn þannig að allir fá drauma oddaleikinn sem getur vel dottið báðum megin,” sagði Jóhann Árni og sagði stöðuna hættulega.

 

,,Það er hættulegt þegar menn eru nánast farnir að huga að því í hvaða fötum þeir ætli að skemmta sér um kvöldið. Samanber Njarðvík-Tindastóll 2001 held ég…,” sagði Jóhann léttur í bragði en hann telur að Snæfellingar séu það gott lið að þeir tapi ekki þremur leikjum í röð.

 

,,Mér hefur fundist erfiðast að spila gegn Snæfellsvörninni af öllum liðum í deildinni þetta tímabilið. Ég held að Snæfell stígi upp varnarlega á fimmtudaginn og taki sigur, þeir finna leið.”

 

Jóhann segir að Keflvíkingar séu í svakalegu formi um þessar mundir en það hafi ÍR-ingar einnig verði í undanúrslitum eftir tvo fyrstu leikina. ,,Ég er ekki að taka neitt af Keflavík, þeir eru með frábært lið og eru vel þjálfaðir en það eru Snæfellingar líka og ég held að þeir séu ekki búnir að segja sitt síðasta,” sagði Jóhann Árni Ólafsson leikmaður Njarðvíkinga í samtali við Karfan.is

 

Þriðji leikur Keflavíkur og Snæfells fer fram kl. 19:15 í Toyotahöllinni á fimmtudagskvöld og með sigri verða Keflvíkingar Íslandsmeistarar í níunda sinn.

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -