spot_img
HomeFréttirAnna Björk Bjarnadóttir: Situr aumingjahræðsla í mér

Anna Björk Bjarnadóttir: Situr aumingjahræðsla í mér

7:00

{mosimage}

Það er ekki víst að allir körfuknattleiksunnendur af yngri kynslóðinni muni eftir Önnu Björk Bjarnadóttir sem lék með ÍS fyrr á árum og svo seinna með Skallagrím í 2. deildinni, auk þess sem hún lék 7 A landsleiki. Fleiri kannast kannski við eiginmann hennar, Tómas Holton, sem gerði garðinn frægan með Val og Skallagrím.

Karfan.is hafði upp á Önnu Björk sem nú vinnur hjá Símanum og spurði hana út í lífið og tilveruna nú og þá, einnig muninn á Íslandi, Ungverjalandi og Noregi en Anna Björk hefur búið í öllum þessum löndum.

Ertu enn að fylgjast með körfuboltanum?
Já, töluvert, en núna fer mestur tími í að fylgjast með yngri flokka boltanum, þar sem báðir krakkarnir mínir eru óvart heilaþvegin af körfubolta og spila bæði með Fjölni. Ég fer því á marga Fjölnisleiki, og svo er Skallagrímshjartað enn seigt, þannig að ég reyni að missa ekki af

leik með þeim þegar kemur að úrslitakeppnum alla vega. Eins er alltaf ómissandi að fara á bikarúrslitaleikina, ekki síst í kvennakörfunni, þar sem þeir hafa að mínu mati verið skemmtilegri og meira spennandi en í karlakörfunni undanfarin ár.

Spilar þú körfubolta enn?
Nei, því miður. Það situr einhver aumingjahræðsla í mér eftir hásinarslit fyrir nokkru, þannig að ég held mig við ræktina. Þó verð ég að nefna skemmtilega stund á unglingalandsmótinu í fyrra þegar við nokkrar gamlar og stirðar körfuboltamömmur og fyrrverandi leikmenn mönuðum hverja aðra í tvö lið og spiluðum leik. Það má segja að komin sé hefð á það á  unglingalandsmótum að gamlir afdankaðir körfuboltamenn þykist ennþá vera í formi og kunna körfubolta, safni í lið og búi til leiki sér til skemmtunar og yndisauka. Börnin okkar hafa þó einhverra hluta vegna forðast áhorfendapallana á þessum leikjum…

Starfar þú eitthvað í kringum boltann?
Ég fylgi krökkunum sem fyrr, aðstoða við fjáröflun, fylli geymsluna af klósettpappír og eldhúsrúllum og þess háttar, en ég kem ekki formlega að neinu körfuboltastarfi. Tómas sér alfarið um það í fjölskyldunni, enda hefur hann þjálfað lið krakkana mörg undanfarin ár og allt sem því fylgir. Ég er svo bara gargandi mamman á pöllunum og sé um áfallahjálpina og

analysuna á kvöldin ef illa gengur.

Nú hefur þú búið í Ungverjalandi og Noregi auk þess að búa á Íslandi. Hver er munurinn á körfuboltanum, bæði leiknum og umhverfinu í kringum hann. Bæði meistaraflokk og yngri fokkum.
Körfuboltinn hefur breyst gífurlega mikið – til hins betra – síðan ég var að spila sem mest. Kvennakörfuboltinn sérstaklega, hefur tekið miklum framförum hér heima og er mun meira lagt upp úr góðum þjálfurum og umgjörð í kringum stúlkna- og kvennabolta en áður. Það er mér ennþá ferskt í minni úr einum leik í meistaraflokki kvenna á íslandsmóti, þegar ég var að

syngja mitt síðasta, þegar annar dómari leiksins hvarf allt í einu í hálfleik. Skýringin var að hann var svangur, og hafði dæmt svo marga leiki í röð þann daginn…..Frekar slakt. Þetta sé ég ekki gerast í dag sem betur fer, þó því miður sé ekki um auðugan garð að gresja í fjölda dómara á Íslandi. Þá hafa augu manna opnast fyrir mikilvægi góðs barna- og unglingastarfs í körfunni og að það þurfi að vera jafnvægi milli vægis meistaraflokka og yngri flokkastarfs. Það er tildæmis unun að mæta á úrslitakeppnirnar í yngri flokkunum, þar sem umgjörðin er orðin frábær og KKÍ og liðunum til mikils sóma.

Ef ég sný mér svo að Ungverjalandi, þá var þó nokkur munur á öllu í kringum körfuboltann þar en hér heima á þeim árum. (Ath. að við erum að tala um 20 ár tilbaka). Það var áberandi hvað allir leikmenn voru með góða grunnþjálfun í öllu, bæði tæknilega og líkamlega. Allir krakkar kunnu grunnatriðin í þaula, – hreyfa sig án bolta, spila sig fría, lesa leikinn, láta leikinn ganga án leikkerfa, fyrir utan það að gefa góðar sendingar, vera jafnvígir á báðar hendur, pósta upp og pívota o.s.frv. Allir þjálfarar voru vel menntaðir og faglegir í sínu starfi, á öllum aldursstigum, en þar eigum við ennþá langt í land í körfunni hér á landi. Sem dæmi um getumuninn í kvennakörfunni á þeim tíma, má síðan nefna að ég sem landsliðskona á Íslandi komst ekki í byrjunarlið í ungversku 2. deildinni. Tómas var hins vegar vel gjaldgengur í efstu deild karla sem íslenskur landsliðsmaður, enda karlakarfan komin lengra á Íslandi á þeim tíma.

Í Noregi var það svipað, kvennakarfan mun sterkari en sú íslenska. Þar er körfubolti reyndar lágt skrifuð íþrótt yfirhöfuð, körfuboltasamfélagið lítið og fær litla sem enga athygli í fjölmiðlum, ólíkt Ungverjalandi.

Nú vinnur þú hjá  Símanum, sérðu fyrir þér að Síminn myndi koma að því að gera sem flestum félögum kleift að senda leiki sína út á netinu líkt og KR gerir?
Fyrir heita körfuboltaaðdáendur eins og okkar fjölskyldu eru netleikirnir alveg frábær þjónusta, ekki síst þegar maður kemst alls ekki á leiki, eins og raunin var núna þegar yngri flokka landsliðin spiluðu á Norðurlandamótinu í Svíþjóð. Þá sátum við klístruð við skjáinn að fylgjast með leikjunum og það voru mikil vonbrigði þegar ekki náðist að streyma sumum leikjunum. Þá var gott að hafa skemmtilega textalýsingu Snorra og co. Ég held að þetta sé mikil lyftistöng fyrir körfuboltann í heild sinni og vona að framhald verði á. Hvað varðar aðkomu Símans að þessum málum, þá er Síminn eins og önnur fyrirtæki alltaf opinn fyrir að styrkja góð málefni, en þar sem góðu málefnin eru yfirleitt fleiri en peningarnir, þarf því miður alltaf að velja og hafna. Ef ég mætti ráða færi auðvitað allur peningurinn í körfubolta.

[email protected]

Mynd: www.vb.is

Fréttir
- Auglýsing -