spot_img
HomeFréttirAtvinnu- og dvalarleyfi erlendra leikmanna

Atvinnu- og dvalarleyfi erlendra leikmanna

10:45

{mosimage}

Á hverju hausti byrja sömu umræðurnar á öllum spjallsíðum körfuboltans, hversu marga útlendinga verða liðin með? Hvað eru þeir að fá í laun? Er búið að sprengja launaþakið? og síðan kemur hin gamla góða setning, “nei nei, þeir fá ekkert borgað fyrir að spila körfu, þeir eru að vinna hjá fyrirtæki í bæjarfélaginu. Með hliðsjón af þessari umræðu þá datt karfan.is í hug að fá nánari upplýsingar um hvaða reglur gilda um dvöl útlendinga hér á landi og þá sérstaklega þeirra sem spila íþróttir.

 

Erlendum ríkisborgurum má skipta upp í þrjá flokka. Norðurlandabúa sem mega búa hér og starfa eins og Íslendingar. EES-ríkisborgarar* sem mega koma til landsins og starfa í þrjá mánuði en eftir það þarf að sækja um dvalarleyfi. Það er mjög auðvelt ferli og yfirleitt afgreitt samdægurs ef öll gögn eru til staðar. Síðan eru það öll önnur lönd og er í daglegu tali talað um “ríkisborgara 3ju ríkja”. Undir þennan flokk falla Bandaríkin, Austur-Evrópa og Nýja-Sjáland svo eitthvað sé nefnt. Ríkisborgarar frá þessum löndum og öðrum þriðju ríkjum þurfa að fá dvalar- og atvinnuleyfi áður en þeir koma hingað til lands. Mörg lið hafa brugðið á það ráð að fá erlenda ríkisborgara hingað til lands sem ferðamenn og sótt síðar um leyfi fyrir leikmennina. Samkvæmt íslenskum lögum þurfa allir sem hyggjast ráða sig í vinnu, fyrir endurgjald eða án þess, dvalarleyfi auk atvinnuleyfis og eru því slíkar aðferðir ólöglegar þar sem dvalarleyfi þarf fyrir atvinnu-körfuknattleiksleikmenn. Auk þess að vera ólöglegt þá getur leikmaður ekki fengið dvalarleyfi meðan hann dvelst hér á landi þar sem samkvæmt lögum má hann ekki vera á landinu þegar leyfi er veitt. Hefur það komið fyrir að leikmenn verða að yfirgefa landið til þess að fá dvalar- og atvinnuleyfi og koma síðan aftur þegar leyfi hefur verið veitt en því fylgir mikill kostnaður fyrir íþróttafélagið.

 

Erlendir leikmenn fá atvinnuleyfi á þeim grundvelli að þeir séu sérfræðingar, þ.e.a.s. þeir eru með þekkingu og hæfileika sem ekki er hægt að finna á Íslandi eða á EES-svæðinu. Hér áður fyrr fengu íþróttafélög leikmenn til landsins sem síðan fengu atvinnuleyfi til að vinna hjá fyrirtækjum í bæjarfélaginu. Eftir að löndum EES fjölgaði hefur slíku verið hætt og aðeins þeir leikmenn fá atvinnuleyfi sem eru á launaskrá hjá íþróttafélaginu. Sem sagt, íþróttafélög verða að greiða leikmanninum laun, ekki fyrirtæki, til þess að leikmaðurinn fá atvinnuleyfi.

Auk þess þarf að greiða leikmanninum laun í samræmi við almennar launakröfur á Íslandi og hefur þumalputtareglan verið að leikmaðurinn fái a.m.k. 100.000kr á mánuði auk fríðinda (húsnæði, bíll, fæði) til þess að hægt sé að fá leyfi. Má segja sem svo að ef íþróttafélag er ekki tilbúið að greiða leikmanninum þessi laun þá sé ekki um sérfræðing að ræða og þar af leiðandi á hann ekki rétt á atvinnuleyfi.

 

Íþróttafélög bera ábyrgð á því að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi fyrir erlenda leikmenn og getur það varðað sektir og fangelsisvist ef útlendingar starfa hérlendis án leyfis. Það er því mikil ábyrgð sem fylgir íþróttafélagi sem fær til sín erlendan leikmann. Getur það einnig haft alvarlegar afleiðingar ef leikmaður er hér í leyfisleysi til lengri tíma en þá gæti leikmaðurinn fengið endurkomubann til Íslands og allra landa innan Schengen. Það getur orðið til þess að leikmaðurinn getur ekki ferðast innan Schengen í nokkur ár og þannig heft ferðafrelsi leikmannsins. Einnig er nauðsynlegt að íþróttafélagið greiði lögbundna skatta af launum leikmannsins. Sé það ekki gert þá verður framlenging á dvalarleyfi ekki samþykkt en dvalarleyfi eru að jafnaði aðeins veitt til 1 árs og þarf því að sækja um nýtt leyfi reglulega.

 

Í stuttu máli, allir leikmenn 3ju ríkja þurfa dvalar- og atvinnuleyfi. Til að öðlast dvalar- og atvinnuleyfi þarf íþróttafélagið að greiða a.m.k. 100.000 kr í laun til leikmannsins ásamt fríðinda (bíll, húsnæði, fæði). Íþróttafélag getur þurft að greiða sektir ef erlendur leikmaður er án dvalarleyfis auk þess sem leikmaðurinn getur fengið endurkomubann til Íslands sem og allra Schengen landa.

 

*EES ríkin eru eftirfarandi: Austurríki, Belgía, Búlgaría, Danmörk, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ísland, Ítalía, Liechtenstein, Lúxemborg, Noregur, Portúgal, Spánn, Svíþjóð, Þýskaland, Sviss, Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Stóra Bretland, Tékkland, Ungverjaland, Malta og Kýpur.

Bryndís Gunnlaugsdóttir – [email protected]

Mynd: [email protected]

 

Fréttir
- Auglýsing -